Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 20:36:49 (3505)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hún er a.m.k. bindandi samkvæmt þeim skilningi sem stjórnarflokkarnir hafa lagt í þessa aðferð. Við höfum sagt það alveg skýrt að við munum fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem þið kallið hana ráðgefandi eða bindandi. Ég hef spurt leiðandi menn í stjórnarandstöðunni út í þeirra skilning á því, einn situr út í sal, vörpulegur og bjartur. Hann svaraði því alveg skilyrðislaust fyrir sitt leyti og kvað já við því. (PHB: Hvað segir stjórnarskráin?)

Síðan vildi ég að hv. þingmenn sjálfstæðismanna læsu ályktun eigin landsfundar eilítið betur, a.m.k. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hann þyrfti að lesa hana. Þar segir alveg skýrt að það séu sumir hlutir sem ekki sé hægt að ganga að heldur verði að komast að í samningum. Þetta segir í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að koma hingað og segja að allir menn viti hvað er inni í þessu Evrópusambandi. Það er ekki svo. Ég hef fyrir því orð ekki ómerkari stjórnmálaflokks en Sjálfstæðisflokksins.