Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 20:52:38 (3518)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held því miður að þetta mál allt saman sé svona dæmi um hvernig ekki eigi að vinna hlutina. Ef menn hefðu viljað fá sátt í þjóðfélaginu um að nota milljarð í þessa vegferð þá hefðu þeir átt að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Menn ættu ekki að koma hér og segja að það sé bara ofsalega spennandi að sjá hvað sé í þessum Evrópusambandspakka. Þeir hefðu átt að leggja þetta á borðið, reyna að fá víðtæka samstöðu bæði milli pólitískra aðila og þeirra sem þurfa að þessu máli að koma þannig að vegferðin yrði sannfærandi og hægt væri að réttlæta það að leggja gríðarlega fjármuni í þetta. 1.000 milljónir eru alltaf stór upphæð en hún er sérstaklega stór núna og því miður af því að ég veit hvert verkefnið er og hef verið í þessum viðkvæma málaflokki, ég veit hvað munar um hverja milljón, hvað þá 1.000 milljónir.