Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 21:23:08 (3525)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér af hverju hv. þingmaður, sem er yfirvegaður og umburðarlyndur og mér finnst oft og tíðum vera nokkuð frjálslyndur, telji að það sé eitthvað hættulegt við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja það í dóm þjóðarinnar. Hv. þingmaður sagði hér í andsvari við mig um daginn að hann væri meira að segja reiðubúinn til þess að láta niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu stýra sinni för í atkvæðagreiðslum hér á Alþingi ef gæfan sér til þess og forlögin að hann verði hér aftur eftir næstu kosningar, sem ég sannarlega vona.

Hvað telur hv. þingmaður að sé í hættu? Ef það er þannig, eins og hv. þingmaður reifaði hérna áðan, að líklegt væri að þeir sem semja fyrir okkar hönd kæmu heim með samning sem væri svona vondur bæði fyrir landbúnaðinn og fyrir sjávarútveginn, hvaða líkur telur þá hv. þingmaður á því að hann verði samþykktur? Við vitum það fullvel að það eru fyrst og fremst þrjú atriði sem munu skipta sköpum, samningar sem tengjast samstarfi um gjaldmiðilinn, um sjávarútveginn og um landbúnaðinn. Af þessu tvennu verður mjög erfitt, teljum við — höfum aldrei dregið dul á það — að semja um viðunandi lausnir í sjávarútvegi en líka í landbúnaði. Ef hann gefur sér það að niðurstaðan verði svona neikvæð af hverju heldur hann þá að Íslendingar muni samþykkja þetta? Ég held að áhættan sé ekki mjög mikil.

Að því er kostnaðinn varðar þá vísa ég til þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði hér. Vissulega ræddi hann með gagnrýnum hætti um kostnaðaráætlun. En hann sagði líka að ef menn á annað borð legðu í slíkan leiðangur þá ættu þeir ekki að horfa í kostnaðinn vegna þess að það væri svo miklu meira í húfi. Ég vek eftirtekt á því að stærsti hlutinn af þessum kostnaði er þýðingarkostnaður, 600 milljónir tæpar. En það er hugsanlegt, það er ekki útilokað að við getum fengið styrki til þess. En hitt ber líka á að líta að þarna er um ákveðinn þýðingarhalla að ræða. Við þurfum hvort eð er að þýða (Forseti hringir.) töluvert mikið og erum á eftir þannig að það er peningur sem má draga frá þessu. Það veit ég að hv. þingmaður sem góður kaupfélagsmaður skilur.