Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 21:25:23 (3526)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þennan kostnað þá vil ég byrja á því að segja að það var upplýst hér í ræðu í dag eða gær — ég man ekki hvort er — að til dæmis í landbúnaðarráðuneytinu, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upplýsti það að ekki er búið að áætla kostnað þess ráðuneytis varðandi þessa aðildarumsókn. Það er ekki neitt búið að áætla kostnað heils ráðuneytis varðandi þessa umsókn. Ég geri því ráð fyrir að slíkt megi segja um aðrar ríkisstofnanir jafnvel og hugsanlega önnur ráðuneyti og þá spyr maður hvort þessi milljarður sem hér er talað um sé ekki í raun tveir eða fleiri. Það er ágætt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé eingöngu hans ráðuneyti sem búið er að áætla þennan kostnað, fyrst hann er hér í andsvörum.

Við hvað er ég hræddur? Ég er hræddur við mjög margt í þessu og ég ætla að nefna aðallega tvennt. Ég er hræddur við það að þeir stjórnarflokkar sem nú eru í ríkisstjórn og þá sérstaklega flokkur hæstv. utanríkisráðherra, þó að ég hafi miklar mætur á honum eins og hann hefur á mér samkvæmt hans yfirlýsingum hér áðan, þá óttast ég að þegar á hólminn verði komið verði ekki staðið á bremsunni, að þá verði ekki virt það álit sem ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla gefur. Eins og ég skil málið á eingöngu að viðhafa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og ég hef áhyggjur af því.

Ég hef líka áhyggjur af því, hæstv. utanríkisráðherra, að þegar á hólminn verður komið verði farið með þingið og þjóðina eins og gert er núna varðandi Icesave-samkomulagið, það verður búið að stilla öllum upp við vegg og sagt: „Við verðum að samþykkja þetta. Það er ekkert annað í boði. Það er þjóðarvoði ef þetta verður ekki samþykkt.“ Það eru þau skilaboð og það er sá málflutningur sem hér er hafður uppi af stjórnvöldum varðandi Icesave.

Hvers vegna eigum við sem erum efins að trúa því að það verði eitthvað annað uppi í þessu? Hvers vegna eigum við að trúa því? Þetta mál er þannig vaxið að það er útilokað að mínu viti fyrir ríkisstjórnina að leggja af stað í þessa vegferð með líklega nauman meiri hluta fyrir því að fara þessa leið, með hálft þingið á móti sér og með nærri 80% af þjóðinni á móti (Forseti hringir.) sér.