Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 21:29:32 (3528)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að glettni hæstv. utanríkisráðherra og mér þykir einkar vænt um hug hans til kaupfélaganna. En því miður deilum við ekki sömu ást á þessu stóra kaupfélagi sem hann er um það bil að skrá sig í eins og ég skil hlutina alla vega.

Það er nefnilega þó nokkur munur á því hvort við erum með kaupfélag sem er rekið á héraðslegum forsendum, hugsar um sitt hérað, sitt nærumhverfi, eða hvort við erum með kaupfélag sem er svo stórt að það skilur ekki og veit ekki hvað íbúarnir eða þeirra nærumhverfi vill og hugsar og telur sig þurfa. (Gripið fram í: Þá er bara að ...) Það er nefnilega þannig, hæstv. utanríkisráðherra, að hið stóra kaupfélag í Evrópu, í austrinu, sem hann er svo ákafur að ganga inn í, hefur að mörgu leyti ekkert samband og líklega ekkert samband við sína umbjóðendur. (Gripið fram í.) Það undirstrikar það, hæstv. utanríkisráðherra, ef ég veit rétt, að á rúmlega 700 manna þingsamkomu hjá Evrópuþinginu — held ég að það sé eða eitthvað slíkt — munum við eiga um það bil fimm hausa eða sex.

Þrátt fyrir að við hæstv. utanríkisráðherra getum talað hátt og látið fara mikið fyrir okkur efast ég um að rödd okkar muni ná þeim eyrum sem við þurfum á að halda í þessu stóra og mikla, ja, ég ætla ekki kannski að segja, kaupfélagi þarna austur frá því að mér finnst kaupfélagshugsjónina setja niður, samvinnuhugsjónina, við að bera þetta saman.

Ég vil þó segja að samkvæmt könnun, hæstv. ráðherra, vilja 76,3% landsmanna að greitt verði þjóðaratkvæði um það hvort við eigum að fara í þessa vegferð sem við erum að fara í. Af hverju ætli það sé? Það er vegna þess að þjóðin hefur áhyggjur af því að við séum að gera þetta á röngum forsendum, á röngum tíma og að við eigum að einbeita okkur frekar að hlutunum hér heima. Undir það tek ég með þjóðinni. Við eigum að hugsa um nærumhverfi okkar og reyna að komast út úr þeim vanda sem við erum í í dag, ekki (Forseti hringir.) að leggja í þessa voðalegu vegferð.