Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 21:33:56 (3530)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að möguleikar og sóknarfæri landbúnaðarins eru mikil. Við getum samt ekki verið svo gríðarlega bjartsýn að við getum leyft okkur að segja að með því að ana út í óvissuna sem felst í því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og ganga hugsanlega í það, séum við búin að tryggja að íslenskur landbúnaður muni vaxa og dafna um alla eilífð.

Þvert á móti hafa Bændasamtökin og aðilar í landbúnaðinum bent á að í rauninni væri verið að leggja landbúnaðinn í rúst með því að ganga þessa leið sem við erum að tala um að fara. Af hverju ætli menn haldi það? Það er vegna þess að menn hafa reynslu annarra fyrir framan sig.

Það vantar inn í þessa umræðu, t.d. í þá skýrslu sem við ræddum í dag og í álit meiri hlutans. Ekkert er t.d. talað um þær afurðastöðvar sem eru í landinu og fullvinna vörur landbúnaðarins. Ekkert er minnst á þau tíu þúsund störf sem eru í þeim geira og öll þau störf sem eru afleidd, ekkert er minnst á þetta. Af hverju ætli það sé?

Ég vil líka benda á það varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að Sviss fór í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2001. Hér hafa sumir þingmenn Samfylkingarinnar talað eins og það sé alveg út í hött að ætla að fara þessa leið, að enginn hafi gert það. En Svisslendingar fóru hana og maður veltir fyrir sér, ef maður á að vera ljótur í hugsun, hvort ákveðnir þingmenn hérna og samfylkingarmenn sérstaklega, hv. þingmaður, séu að reyna að leyna þjóðina því að þetta sé þekkt leið sem hefur verið farin. Reyndar höfnuðu Svisslendingar því að fara í aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2001 með miklum meiri hluta. Það er kannski þess vegna sem þetta hefur ekki verið dregið fyrr upp á borðið.