Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 21:38:05 (3532)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gamaldags kjaftasaga sagði hv. þingmaður og ég ætla ekki að leggja út af þeim orðum en ég velti því fyrir mér hvort það geti verið að það sé álit einhverra að sú gagnrýni sem kemur fram sé kjaftasögur. Það er ekki þannig. Komið hafa fram í blöðum gagnrýnar greinar, upplýsingar og samanburður sem hrekur það að gott sé að vera í þessu Evrópusambandi.

Þegar talað er um upplýsta umræðu velti ég fyrir mér því sem kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra í dag — þó að hann væri með og ekki með og á móti og maður viti í rauninni ekki hvað hann er að fara — hann upplýsti að hann treysti sér til þess að komast að því á einni viku hvort við ættum að fara í Evrópusambandið eða ekki. Ég spyr þá: Hvers vegna í ósköpunum var tímanum sem hæstv. utanríkisráðherra eyddi á Möltu, í einhverri dularfullri ferð sem enginn vildi kannast við hér í þinginu, ekki bara varið í Brussel til þess að komast að því hvað við fáum, fyrst þetta er svona einfalt? Af hverju var ekki bara farið og spurt: Hvernig er þetta með sjávarútveginn, hvernig er þetta með landbúnaðinn? Um hvað getum við samið?

Til hvers þurfum við þennan hamagang hér á þingi til að fela utanríkisráðherra og einhverjum samningamönnum sem hann væntanlega velur, til þess að fara í vegferð sem við vitum ekkert hverju skilar okkur? Hvernig er það? (Gripið fram í: Margbúið að skoða þetta.) (Gripið fram í: Er þetta ekki Icesave á einni viku?)

Ef við getum einfaldlega, hv. þingmaður, farið og spurt (Forseti hringir.) og kannað um hvað við getum samið varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn, hvort við getum fengið afslátt og undanþágur fyrir sjávarútveginn … Ef við þurfum að gefa eitthvað eftir í okkar sjávarútvegi, og við getum á einni kvöldstund fengið það upp á borðið þurfum við ekkert að ræða frekar við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Við þurfum ekki að ræða frekar við Evrópusambandið ef við þurfum að fórna einhverju af þessum grundvallarhagsmunum okkar.