Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 22:04:18 (3536)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði ráð fyrir að hv. þm. Illugi Gunnarsson mundi vera með góð svör við þessum spurningum og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég vil hins vegar gjarnan gefa honum tækifæri til að halda þessu áfram varðandi hugmyndafræði Evrópusambandsins. Þar sem ég hef sjálf átt í svolitlum erfiðleikum varðandi Evrópusambandið tengist því sem ég tel að sé svona grunnhugmyndafræði hjá Sjálfstæðisflokknum, þ.e. þetta um frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns, mikilvægi samkeppni og mikilvægi þess að búa til einn sameiginlegan markað og áherslan á mikilvægi markaðshagkerfis. Stundum hef ég því átt í svolitlum erfiðleikum með að skilja akkúrat hvers vegna Sjálfstæðisflokknum mislíkar svona við Evrópusambandið þegar ég horfi á þessa grundvallarhugmyndafræði hjá Evrópusambandinu. En þessi útskýring hv. þingmanns hérna um að það tengdist því að hann sæi að valdið kæmi ekki nógu beint frá fólkinu, er hann þá að tala fyrir því að Evrópusambandið þyrfti í raun að verða eins og Bandaríkin til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti sætt sig við Evrópusambandið? Ég hef mikinn áhuga á að heyra svör hv. þingmanns við þessum spurningum.