Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 22:05:47 (3537)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð spurning. Fyrst hvað varðar frelsið þá er einmitt það einna skást við þetta system allt saman, þ.e. hugmyndin um frjálst flæði á fjármagni og að fólk hafi möguleika á að fara milli landa til að starfa og það einmitt höfum við með EES-samningnum. Það er rétt að nefna að það kerfi var kannski ekki nægilega vel úr garði gert, að þegar undir lágu síðan ríkisábyrgðir á bönkum þegar kom að innstæðum, sem náttúrlega er ákveðin tegund af sósíalisma, að það var auðvitað ákaflega óheppilegt að slíkt kerfi skyldi vera og mönnum, að því er virðist, hafa verið hulið. En gott og vel.

Það sem er jákvætt í þessu bandalagi er einmitt það að ekki séu tollamúrar á milli landa, að hægt sé að eiga viðskipti á milli ólíkra þjóða. En svo kemur enn og aftur að því sem menn hafa miklar áhyggjur af og margir hafa bæði rætt um og skrifað um, sem er að úr því að menn tóku upp evruna þá er alveg augljóst í mínum huga að þegar menn horfa til nokkurra áratuga fram í tímann þá muni sambandið fara í þá áttina að meira og meira vald verður miðlægt. Það held ég að sé óumflýjanlegt vegna þess að þegar menn eru komnir með einn gjaldmiðil þá kallar það á meiri samþættingu ríkisfjármála ríkjanna. Um leið og menn eru farnir að tala um samþættingu ríkisfjármála er verið að tala um svo mikla samvinnu á svo mörgum sviðum að hún mun dýpka. Þá myndast sá vandi hvernig menn eigi að tengja við þetta mikla miðstýrða vald sem verður til venjulega borgara í Finnlandi, Grikklandi, á Ítalíu, Frakklandi eða hvar það er þannig að þeir geti tekið þátt í því að kjósa um sameiginleg málefni (Gripið fram í.) og til að menn geti kosið um sameiginleg málefni verða þeir líka að hafa einhvers konar sameiginlega sjálfsmynd. Það er vandinn, menn eru fyrst Finnar, svo Evrópumenn, menn eru fyrst Ítalir, svo Evrópumenn og svo framvegis. Munurinn á þessu og Bandaríkjunum er nefnilega sá að þar eru menn einmitt Bandaríkjamenn fyrst og svo eitthvað annað.