Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 10:01:59 (3540)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er bjart yfir þessum degi þegar við erum að ljúka sögulegri umræðu þar sem Alþingi ákveður hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu og niðurstaðan síðan lögð í dóm þjóðarinnar. Ég vil í mínum stuttu lokaorðum þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið skemmtileg, hún hefur verið lífleg, hún hefur verið upplýsandi en umfram allt hefur hún verið mjög málefnaleg. Meiri hluti þingmanna hefur tekið þátt í þessari umræðu og mér hefur fundist hún hafa borið merki þess að menn vilja ræða þetta mál á upplýstum og málefnalegum grunni.

Það er margt sem mér hefur fundist athyglisvert og ýmsar niðurstöður sem má af þessari umræðu draga. Í fyrsta lagi er það nokkuð augljóst í mínum hug að þingið og þingmenn eru meira en tilbúnir til að taka þessa ákvörðun. Þeir fjölmörgu þingmenn sem hér hafa talað hafa gert það af þrótti og þeir hafa gert það af mikilli þekkingu, sumir yfirburðaþekkingu. Það gildir jafnt um þingmenn stjórnarandstöðu sem stjórnar. Það má heita að sama sé hvar gripið er niður í þá málaflokka sem mikilvægastir eru, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, byggðamál, umhverfismál. Þingmenn hafa greinilega heyjað sér mjög mikinn þekkingarforða og það er gott, ekki bara fyrir þingið heldur fyrir þjóðina. Hvernig sem ákvörðunin mun liggja í lok þessa dags er alveg ljóst að þessi mál verða brýn á næstu missirum og árum og við þurfum þing sem hefur þekkingu á þessum málum.

Í annan stað hefur mér þótt þegar ég hef hlustað á ræður stjórnarandstæðinga, sem líka hafa verið fluttar sumar innblásnar og af innlifun, að með einstaka undantekningum þar sem menn hafa beinlínis farið gegn því að sótt yrði um aðild þá hefur mér fundist sem það sé ákveðinn skilningur af hálfu stjórnarandstöðunnar á því að það kynni að vera hagsmunum Íslands fyrir bestu að látið yrði á þetta reyna. Þeir þingmenn sem hafa talað fyrir stjórnarandstöðuna hafa fyrst og fremst reifað ýmsar tæknilegar afleiðingar af því ef það verður ráðist í umsókn, þ.e. hverjar afleiðingarnar verða, hvernig verði staðið að þjóðaratkvæðagreiðslu, hvenær hún á að vera, hvernig á að breyta stjórnarskrá, með hvaða hætti og sömuleiðis hvenær. Þetta gefur mér góðar vonir til að ætla það að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer á hinu háa Alþingi í dag verði hægt í framhaldinu að ná góðri samstöðu um það með hvaða móti við eigum að leggja í þetta ferðalag alveg eins og dregið er upp á svo grafískan og góðan hátt í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég tek fram að það álit var unnið í góðri sátt að mörgu leyti þó niðurstaðan hafi orðið sú að ekki voru allir á eitt sáttir.

Umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið í deilu og togstreitu innan þjóðarinnar um árabil og það er einfaldlega kominn tími á það, frú forseti, að þjóðin sjálf skeri úr um hvernig eigi að leiða þá deilu til lykta. Um þetta eru ákaflega margir sammála og það verður ekki gert nema með því að fyrir liggi gögn málsins, þ.e. það sé búið að sækja um þannig að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun.

Það hefur komið fram og verið áberandi í máli hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar að þeir saka ríkisstjórnina um að hafa ekki sameiginlega stefnu í þessu máli. Ég segi hins vegar: Það er rangt. Hún er sammála um að búa þetta mál í hendur þjóðarinnar með þeim hætti að hún geti sjálf útkljáð þetta deilumál og skorið úr um það hvort hún telji að hagsmunum sínum sé betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Hitt er alveg hárrétt hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórnarflokkarnir hafa hvor um sig haldið vel til haga sínum rétti til að taka afstöðu með eða móti þeirri niðurstöðu sem hugsanlega kann að verða lögð fram að lyktum þessarar vegferðar.

Í þessum umræðum hefur komið skýrt fram að utanríkismálanefnd og sérstaklega formaður hennar hefur fengið mikið lof fyrir þau vinnubrögð sem þar hafa verið höfð uppi. Ég vil og ekki í fyrsta skipti taka undir það og ég tel að sú niðurstaða sem núna liggur fyrir í meirihlutaálitinu sé ákaflega góð. Þar er í fyrsta lagi að finna skýrustu og ítarlegustu samantekt um helstu samningshagsmuni Íslands. Í öðru lagi er vegvísir að því hvernig framvinda atburðarásarinnar ætti að vera þó ég geri mér grein fyrir því að þar sé kannski vík á milli vina þar sem stjórn og stjórnarandstaða eru. Í þriðja lagi er lögð þar gríðarlega þung áhersla á samráð og ég vil lýsa því alveg skýrt yfir að ég er sammála því verkferli sem þar kemur fram um samráðið. Ég vil að það takist sem best samstaða þegar þessari atkvæðagreiðslu lýkur um það hvernig við högum þessu máli fram að lokaniðurstöðu og ég mun, ef atkvæðagreiðslan fer á þá leið að Alþingi taki þessa ákvörðun, ræða við forustumenn stjórnmálaflokkanna um mögulegt samstarf á því sviði.

Ég tel líka að utanríkismálanefnd hafi farið í mjög hallkvæman farveg í málinu þegar hún ákvað að leita eftir sem víðustu samráði við almenning. Hún auglýsti bókstaflega eftir áliti einstaklinga og félagasamtaka. Ég hef farið yfir þau sem hefur verið skilað skriflega. Ég held að þau séu um það bil 55–60 talsins. Það vekur eftirtekt mína þegar ég les þessi álit að þá kemur í ljós að af þeim öllum eru ekki nema sex þar sem er beinlínis lagst gegn því að menn ráðist í það að sækja um aðild og leggja síðan niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Það kemur ekki á óvart að þessi sex fjalla um þau tvö hagsmunamál sem við vitum fyrir fram að kunna að verða okkur erfiðust, þ.e. landbúnaðarmál og sjávarútveg.

Ég átti í gærkvöldi orðastað við vaskan og bjartleitan, ungan þingmann, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, formann þingflokks framsóknarmanna, sem taldi að Evrópusambandið væri þannig vaxið innan frá að það væri með miklum ólíkindum ef samningamönnum okkar tækist að koma heim með samning sem mundi ekki leika grátt þessar tvær lykilgreinar, sjávarútveg og landbúnað. Í okkar orðræðu hélt ég því fram að við Íslendingar værum allir synir og dætur sjávar og sveita og það hlyti að vera í lagi að leggja þá niðurstöðu í dóm þjóðarinnar. Ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu að sá samningur væri slæmur fyrir þessar tvær lykilgreinar þá hlyti hún að fella hann. En hv. þingmaður taldi hins vegar að það væri frágangssök, vegna skoðana sem hann deilir með nokkrum öðrum á Evrópusambandinu, að leggja í þennan leiðangur. Ég er því ósammála, frú forseti. Ég tel að það sé ekki sjálfgefið að menn geti gefið sér þessa niðurstöðu fyrir fram.

Hvað varðar landbúnað held ég að við þingmenn séum flestir sammála um hvaða áherslur á að leggja. Við leggjum þær áherslur sameiginlega að viðhalda eigi fæðu- og matvælaöryggi, gæta eigi þeirrar sérstöðu sem felst í fjarlægð landsins og sóttleysi. Við erum líka sammála um að sækja beri eftir því að þessi sérstaða verði viðurkennd með þeim hætti að sú skilgreining sem Finnar fengu á sínum landbúnaði, þ.e. þar væri um að ræða heimskautalandbúnað sem fékk sérstaka afgreiðslu, ætti a.m.k. við um allan íslenskan landbúnað. En það er ekkert sem segir að við getum ekki sótt fram lengra.

Í gær olli nokkru uppnámi skýrsla eða vinnuskjal, drög að skýrslu sem Hagfræðistofnun hafði unnið fyrir Bændasamtökin, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem vöktu athygli mína á þessari skýrslu. Ég vissi ekki af henni áður en ég notaði gærkvöldið til að fara yfir hana. Það er dálítið merkilegt að skoða hana. Þar er verið að máta íslenskan landbúnað inn í finnsku skilgreininguna á heimskautalandbúnaði. Það kemur í ljós, þannig er minn skilningur á þessari skimun á skýrslunni, að hefðbundnu greinarnar í landbúnaði komi ekki illa út úr því. Sauðfjárræktin — og ég vona að hv. þm. Ásmundur Daðason hlýði á orð mín — hin hefðbundna íslenska sauðfjárrækt mun koma betur út úr því innan Evrópusambandsins en utan. Mjólkuriðnaður, ef hann nýtur bestu kjara miðað við finnskan landbúnað, mun verða jafnstæður. Ég fellst á það að verksmiðjuframleiðsla innan landbúnaðar kann að fara verr út úr þessu.

En ég vek líka athygli þeirra þingmanna sem hafa áhuga á þessari skýrslu að síðan hún var gerð hafa forsendurnar breyst, þ.e. gengið hefur breyst. Gengisþróun hefur verið sú að þegar skýrslan var gerð var evran á 130 kr. Hún er núna 180 plús, með öðrum orðum krónan hefur fallið um 30%. Samkeppnisstaðan hefur í rauninni styrkst sem því nemur. Það má segja að í því felist innbyggðar innflutningshömlur og tollvernd.

Ég er líka þeirrar skoðunar að íslenskum landbúnaði kunni og muni í framtíðinni verða fundið betra skjól innan Evrópusambandsins en utan þegar horft er til þeirra breytinga sem líklegt er að verði á allra næstu missirum og næstu árum á vegum og innan vébanda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveg vil ég segja að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, formanni Framsóknarflokksins og hæstv. fjármálaráðherra um að við munum ekki fá neinar varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Ég held því hins vegar fram að við þurfum ekki slíkar undanþágur. Við vitum að 70% af íslensku fiskstofnunum eru staðbundnir. Það gerir það að verkum að staða okkar er einstök. Við höfum líka sérstöðu umfram Norðmenn að því leyti til vegna þess að sjávarútvegur varð að fótakefli í þeim samningum vegna þess að við höfum enga sameiginlega efnahagslögsögu með Evrópusambandinu eins og Norðmenn.

Okkar staða er líka einstök vegna þess að sjávarútvegurinn er okkur lífsnauðsynlegur. Hann er svo mikilvægur að við þurfum að fá hann, hagsmuni hans og vandamálin sem honum tengjast leyst með sérstökum hætti. Ég hef hins vegar sagt áður að það muni gerast. Reynslan sýnir að Evrópusambandinu hefur alltaf tekist að leysa mál sem varða brýna lífshagsmuni þjóða á grundvelli fyrirliggjandi reglna þannig að það hefur orðið sátt þar um. Þetta skiptir máli. Við þurfum sem sagt að fá viðurkenningu á þessari sérstöðu íslensks sjávarútvegs alveg eins og Finnar fengu viðurkenningu á sérstöðu landbúnaðar síns og alveg eins og Maltverjar náðu líka ýmsum tilslökunum og sérlausnum, 23 ef ég man rétt.

Ég vil líka segja að ég tel að í þeirri grænbók sem nú liggur fyrir, þar sem reifaðar eru breytingar á sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni innan Evrópusambandsins og sjávarútvegsráðherrarnir hafa raunar rætt á meðan hefur staðið á umfjöllun þingsins um þessa tillögu, sjáum við mjög skýr merki um að það er vilji til þess innan Evrópusambandsins að breyta sjávarútvegsstefnunni. Það kemur t.d. fram í því að þar er vilji til þess t.d., sýnist mér ef ég ber saman okkar stefnu og þeirra, að dreifa ákvörðunarvaldinu frá Brussel til sérfræðinga og hagsmunaaðila frá veiðisvæðunum. Þar er líka gert ráð fyrir aukinni ábyrgð og framkvæmd hjá aðildarríkjum og útgerðum. Þar eru menn að tala um það sem við mundum að sjálfsögðu aldrei gera annað en berjast gegn, þ.e. brottkasti, það er verið að tala um að afnema brottkastið.

Í þessari umræðu hafa menn líka verið að ræða um regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Hún er lykilregla vegna þess að hún tryggir að með engum rökum væri hægt að halda því fram að aðrar þjóðir gætu í krafti sögulegrar veiðireynslu gert tilkall til veiðistofna okkar. Það hefur komið fram hjá einstökum þingmönnum ákveðinn beygur við það að í framtíðinni eftir að Ísland væri gengið inn yrði þessari reglu hugsanlega breytt. Þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að þetta hefur verið kannað innan Evrópusambandsins og af þeim 27 þjóðum sem þar er að finna eru 26 algerlega á móti því að það verði gert. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í þessari umræðu.

Mér þótti athyglisvert þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson reifaði hugsanlega umsókn að Evrópusambandinu. Mér fannst hann þá tala og halda innblásna ræðu af hjarta sannfærðs Evrópusinna sem væri í reynd búinn að gera það upp við sig við hvaða stelpu hann vildi dansa á því balli. Hv. þingmaður sagði að sér þætti merkilegt að Íslendingar legðu meiri áherslu í umræðunni á efnahagslegan ávinning heldur en ýmislegt annað sem tengist Evrópusambandinu eins og friðarhlutverk þess. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni. Landfræðileg lega Íslands er þannig að við erum í annarri stöðu en t.d. smáþjóð eins og Belgar sem mörgum sinnum á síðustu öld voru hersetnir. Það gerir það að verkum að við skiljum kannski ekki mikilvægi upprunalegs hlutverks Evrópusambandsins sem friðarbandalags. Eigi að síður hefur Evrópusambandinu tekist í gegnum áranna rás að sjá til þess að í Evrópu, sem áður barst á banaspjót í styrjöldum milli Frakka og Þjóðverja öldum saman, þar hefur ríkt friður. En þetta skiptir líka máli fyrir litla og vopnlausa þjóð eins og okkar. Það skiptir líka máli fyrir okkur að hafa skjól ef til þess kemur að staðan breytist í okkar heimshluta.

Efnahagsrökin eru mjög sterk. Þau hafa verið reifuð vel í þessari umræðu. Það að eiga völ á því að geta tekið upp evruna með öllum þeim kostum sem enginn hefur reifað betur en t.d. þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skiptir auðvitað mjög miklu máli. Ég er sammála mörgum þeim sem hér hafa talað sem hafa sagt að einn af helstu ávinningum Litháa við að ganga í Evrópusambandið sé sá möguleiki að geta tekið upp evruna. Auðvitað skiptir það mjög miklu máli fyrir okkur að geta með þeim hætti skapað ákjósanlegt umhverfi til að laða að erlendar fjárfestingar. Ég dreg enga dul á að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur í núverandi stöðu að fá hingað erlent fjármagn til að byggja upp atvinnulífið og til að draga úr atvinnuleysinu. Og umsókn og aðild og upptaka evru leikur hlutverk í því, ég hef ekki dregið dul á það. Sömuleiðis eru þingmenn dag út og dag inn að tala um nauðsyn þess að skapa stöðugleika fyrir heimilin, ná burt verðtryggingunni. Besta leiðin til þess er að taka upp evruna, ganga í Evrópusambandið (Gripið fram í.) og ég held að á þeim válegu tímum sem við lifum núna þá held ég að það skipti máli þegar við horfum til framtíðar að ef við skoðum t.d. þann vaxtamun sem er að lágmarki millum okkar og evrunnar þá blasir við að ef við tækjum upp evruna í framtíðinni gæti vaxtabyrði á Íslandi minnkað um 135 milljarða á ári, vaxtabyrði heimilanna minnkað um 60 milljarða á ári og vaxtabyrði vesalings ríkisins kannski um 30–40 milljarða á ári.

Ég vil hins vegar að lokum, frú forseti, reifa tvo athyglisverða punkta sem ég hef hlýtt á í ræðum hv. þm. Ólafar Nordal og hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Það er spurningin um það hvar við Íslendingar ætlum að finna okkur samastað í tilverunni í framtíðinni. Við vitum það öll að frá því um miðbik síðustu aldar höfum við Íslendingar verið í nánu pólitísku sambýli við Bandaríkin. Við höfum með vissum hætti verið á jaðri áhrifasvæðis þeirra, við höfum tekið mikið mið af stefnu þeirra í gegnum síðustu áratugi. Staðan á alþjóðavettvangi er hins vegar breytt núna. Hagsmunir stórveldanna eru breyttir og það nána vináttusamband sem við höfum haft við Bandaríkin er auðvitað enn þá til staðar og það skiptir mjög miklu máli. En ég held að augu margra hljóti að hafa opnast fyrir þeim breytingum á alþjóðavettvangi sem spegluðust í því að þegar bandarísk stjórnvöld tóku ákvörðun um að flytja herinn í burtu. Þá opnuðust augu margra, ekki vegna þeirra kaflaskila sem fólust í ákvörðuninni heldur í verklaginu sem leiddi til hennar. Þau stjórnvöld sem hér voru við valdataum á sínum tíma voru ekki einu sinni spurð. Þetta skiptir máli. Við þurfum að velta því fyrir okkur: Hvar er Íslandi best búinn staður í framtíðinni? Við erum Evrópuþjóð. Menning okkar er evrópsk. Við höfum lagt drjúgan skerf miðað við stærð okkar samfélags til hinnar samevrópsku menningararfleifðar. Við skulum ekki gleyma því að einn af þekktustu rithöfundum evrópskrar sögu, Snorri, var Íslendingur. Og við skulum ekki gleyma því að Íslendingasögurnar eru inngróinn hluti af hinni samevrópsku menningararfleifð. Það er á þessum grundvelli, vegna hinnar breyttu stöðu í alþjóðasamfélaginu, vegna þess að okkar menning er hluti hinnar evrópsku, vegna þess að við eigum samleið með Evrópu í svo mörgu tilliti að ég tel að Íslendingar eigi í pólitísku, menningarlegu og efnahagslegu tilliti fremur að finna sér þann samastað sem Evrópa er í tilveru okkar í framtíðinni heldur en láta það vera að fara í þennan leiðangur og taka ákvörðun. Ég held að það sé komið að því núna, að það sé margt sem hnígur að því að tíminn er nákvæmlega réttur núna til að taka þessa ákvörðun. Ég skora á alþingismenn að sýna kjark til að koma saman í þessa vegferð.