Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 12:04:17 (3546)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum nú til sögulegrar atkvæðagreiðslu. Samþykki Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu markar það upphaf á vegferð sem leiðir vonandi til aðildarsamnings sem lagður verður í mat og dóm þjóðarinnar. Tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar, sem við göngum til atkvæða um á eftir, er afrakstur af vinnu utanríkismálanefndar þar sem áhersla var lögð á að ná sem breiðastri samstöðu. Hún leggur þær skyldur á herðar ríkisstjórninni að tryggja meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum. Það er bjargföst skoðun mín að umsókn um aðild að ESB muni greiða götuna fyrir skjótri endurreisn íslensks efnahagslífs og fela í sér skýr og traustvekjandi skilaboð til umheimsins. Sem umsóknarríki mun Ísland hafa sterkari stöðu en ella. Aðildarumsóknin felur í sér tækifæri til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir á Íslandi, bæta hag heimila og fyrirtækja og tryggja stöðugleika og efnahagslegar framfarir sem ráðið getur úrslitum um hagsæld í íslensku samfélagi.