Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 12:11:33 (3552)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni hefur verið mjög mikill asi á þessu máli öllu og verið reynt að koma á þessari atkvæðagreiðslu sem allra fyrst. Meðal annars var því haldið fram í gær að komist hefði á einhvers konar niðurstaða um að hafa atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi. Það varð ekki. Enn þarf ég hins vegar að lesa það í blöðunum í dag að einhver slíkur samningur hafi legið fyrir og frá honum hafi verið horfið. Þetta er mjög til marks um það hvernig þetta mál allt hefur verið unnið, það er ekki reynt með rökræðu eða með því að hugsa á rökréttan hátt hvernig best sé að standa að þessu öllu saman heldur með asanum og þrýstingnum að flýta þessu í gegn sem allra hraðast. Ég held því að okkur veiti ekkert af þeim fáu vikum sem gæfust til að fara almennilega yfir málið og leyfa þjóðinni að kynna sér það sem gæfist með því að um það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla.