Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 12:17:55 (3558)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Með tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur gafst tækifæri til að ná sæmilega víðtækri sátt í þessu máli. Það virðist ekki vera vilji til að nýta það tækifæri þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að það sem í þessari tillögu felist sé í raun þegar komið inn í þá rammaáætlun sem mun eiga að fylgja tillögu ríkisstjórnarinnar. Þar af leiðandi tel ég að með þeirri niðurstöðu sem hér stefnir í, að þessi breytingartillaga verði felld, sé staðfest það sem haldið hefur verið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að miklu leyti í umræðum, að það sé ekki búið að setja inn nauðsynleg skilyrði og þessi rammaáætlun um viðmið hafi mjög lítið að segja, sérstaklega ef tekið er tillit til þess hvernig stjórnin hefur fram að þessu haldið á öllu því samráði og þeirri upplýsingagjöf sem lofað hefur verið.