Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 13:04:05 (3593)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er að mínu viti ekki verið að taka afstöðu til þess hvort bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Sú ákvörðun er tekin á síðari stigum, hún er tekin þegar stjórnarskrárbreytingar fara fram því að það er ekki hægt samkvæmt núverandi stjórnarskrá að efna til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna bíður sú ákvörðun þess að stjórnarskránni verði breytt.

Mér sýnist þessi tillaga ganga út á það að þjóðin fái ekki að kjósa um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir, heldur ætlar Alþingi fyrst að taka ákvörðun um það fyrir þjóðina að samþykkja lög um aðild að Evrópusambandinu ef það koma niðurstöður úr aðildarviðræðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Ha?) Ég er ósammála þessari aðferðafræði, (Gripið fram í.) það er ekki langsótt, virðulegur þingmaður, þetta er sannfæring mín í málinu. Ég hef hana og ég segi nei við þessari tillögu.