Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 13:05:17 (3594)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er ekkert flókið mál. Við fjöllum hér um þingsályktunartillögu sem er stefnumörkun Alþingis og tilmæli eða fyrirmæli til ríkisstjórnar. Í tillögu okkar sjálfstæðismanna er tryggt að það verði þjóðin sem hafi með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta orðið. Það er ekkert flókið, það er alveg ljóst eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að komi málið á það stig þarf að breyta stjórnarskránni. Þá breytum við auðvitað stjórnarskránni með þeim hætti að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla skeri úr um það hvort við framseljum fullveldi til yfirþjóðlegra stofnana eða ekki. Það er ekkert flóknara en það.

Málflutningur okkar sjálfstæðismanna hér í dag hefur gengið út á tvennt, að þjóðin hafi fyrsta orðið og að þjóðin hafi síðasta orðið. Það er búið að hafna því að þjóðin hafi fyrsta orðið og mér heyrist að meiri hlutinn hér ætli að hafna því að þjóðin hafi síðasta orðið. Ég segi já.