Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 13:22:48 (3609)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um forréttindi Vesturlanda umfram fátækustu ríki heims og það orki tvímælis að keppast við að koma okkur í slíkan félagsskap nú þegar fátæktin í heiminum verður sífellt alvarlegri og leiðrétting á misskiptingunni sífellt meira aðkallandi.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust (Forseti hringir.) að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.