Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 16. júlí 2009, kl. 13:50:47 (3631)


137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Meginhlutverk Alþingis nú er að endurreisa traust Íslands á alþjóðavettvangi því það er ábyrgð þingsins að lýðveldi vort er trausti rúið. Að lánamarkaðir heimsins eru okkur lokaðir og að landinu hefur verið læst með gjaldeyrishöftum. Að rjúfa þennan vítahring einangrunar, að opna Ísland á ný er brýnasta úrlausnarefni okkar. Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru liður í að endurreisa trúverðugleika okkar á alþjóðavettvangi og því segi ég já. En það er líka viðleitni okkar til að uppfylla aðra frumskyldu þjóðkjörinna fulltrúa, að fá þjóð okkar gjaldmiðil, evruna, sem hægt er að byggja á fjölskyldur og fyrirtæki. Íslenska krónan er því miður orðin of lítil fyrir hagkerfi heimsins og okurvextir hennar, óðaverðbólga, gengishrun og gjaldþrot eru verri lífskjör en Ísland og Íslendingar eiga skilið. Ég segi já.