Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Fimmtudaginn 23. júlí 2009, kl. 12:42:19 (3682)


137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:42]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hv. formaður allsherjarnefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hefur gert skilmerkilega grein fyrir þessu máli í ágætri framsögu sem ég gæti tekið undir. Þá hefur hv. þm. Birgir Ármannsson hreyft sjónarmiðum sem eru allrar athygli verð og ég get tekið undir að mestu ef ekki öllu leyti. Allsherjarnefnd mælir fyrir sameiginlegu nefndaráliti og breytingartillögum, það er mikið ánægjuefni að samstaða skapaðist í nefndinni og breytingartillögurnar eru í þeim farvegi sem ég taldi æskilegar við 1. umr. þessa máls. Aðalatriðið hér er þó, um það vorum við sammála við 1. umr. og engin breyting hefur orðið á því, að styrkja embættið verulega. Því er skapað nýtt form með því að skipa þrjá, nýja sjálfstæða saksóknara. Það er nýmæli að þeir séu sjálfstæðir í störfum og sá vandi lá fyrir nefndinni að skapa umgjörð sem stæðist fullkomlega allar kröfur. Ég hygg að það hafi tekist, formið stenst og aðalatriðið er að réttaröryggið sé líka tryggt. Búin var til formleg umgjörð þar sem horft var til efnahagsbrotadeildar Norðmanna, Økokrim, og skipulagt að mestu leyti út frá því. Ég vek athygli á að fyrrverandi ríkissaksóknari, Bogi Nilsson, hefur haft uppi hugmyndir um skipulag á þessu m.a. og sett fram hugmyndir um aðskilnað ákæruvalds og lögreglustjórnar sem eru allra góðra gjalda verðar.

Ég vil hins vegar líka vekja athygli á því að hugmyndir hafa komið fram um að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra verði ekki bara í sama húsnæði og hinn sérstaki saksóknari heldur verði embætti sérstaks saksóknara og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sameinuð. Ég tek undir þær hugmyndir og hygg að hefja ætti undirbúning að þeirri vinnu sem fyrst. Þá þarf að huga vel að skipulaginu, lögreglustjórninni, ákæruvaldinu, faglegu boðvaldi, stjórnsýslulegu boðvaldi og fleiri þáttum. En ég hygg að þessi sameining mundi styrkja rannsóknir í þessum brotaflokki verulega og ekki síst núna þegar þetta flóð af málum streymir fram.

Hv. þm. Birgir Ármannsson reifaði áðan m.a. sjónarmið um styrkingu dómstóla og ég tel alveg óhjákvæmilegt að við hugum að því fyrr en seinna. Þetta eru umfangsmikil og erfið mál, miklir skjalabunkar, þó að þau lúti sönnunarreglum í venjulegum opinberum málum. Sönnunarreglurnar eru þær sömu. Aðalatriðið í þessum málum er hvað hinn ákærði vissi eða mátti vita og menn geta ekki skýlt sér bak við vanþekkingu, að þeir hafi ekki mætt á stjórnarfundi.

Hins vegar er önnur hlið á þessari kreppu sem við þurfum líka að horfa alvarlega á. Svo virðist sem við séum að ganga í gegnum svipaða reynslu og Finnar í krísunni sem varð þar við fall Sovétríkjanna 1992, 1993, 1994. Þá jukust afbrot þar verulega og mörg hver þeirra tengdust aukinni fíkniefnaneyslu. Fíkniefnaneysla var tiltölulega lítil í Finnlandi en jókst mjög og fíkniefni flæddu yfir landið með tilheyrandi afbrotum. Það þýðir að við verðum líka að horfa til þessarar hliðar á kreppunni og efla mjög hina almennu löggæslu, hvernig sem við svo förum að því, með hagræðingu, og eins að horfa til þess að fjárveitingar hafa verið naumt skornar á undanförnum árum, þar eru vandamál uppi sem Alþingi verður að taka á.

Ég vil að lokum fagna því sérstaklega að í breytingartillögunum var fallið frá því að skipa sérstakt embætti ríkissaksóknara heldur að veita heimild til að skipa ríkissaksóknara í þessum málaflokki ad hoc. Það er mun viðurhlutaminna heldur en setja á stofn embætti, ódýrara og skilvirkara. Nauðsyn á sérstökum ríkissaksóknara ad hoc fellur auðvitað á brott komi til þess að núverandi ríkissaksóknari láti af störfum og annar verði ráðinn í hans stað.

Frú forseti. Ég fagna að lokum þeirri samstöðu sem náðist í allsherjarnefnd og vil taka undir orð þeirra sem hér hafa mælt á undan mér.