Tímabundin ráðning starfsmanna

Fimmtudaginn 23. júlí 2009, kl. 15:46:22 (3729)


137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

tímabundin ráðning starfsmanna.

78. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og fagna innleiðingu þessarar tilskipunar sem felur í sér réttarbót fyrir fólk sem er ráðið tímabundið. Þess er að geta að í kjölfarið á bankahruninu á Norðurlöndunum fjölgaði mjög þeim á vinnumarkaði sem voru aðeins með tímabundna ráðningu. Flestir þeirra sem féllu undir þann hóp voru ungt fólk og þá sérstaklega háskólamenntað fólk. Það er því mikilvægt að innleiða þessa tilskipun núna þegar við erum að fara í gegnum svipað ástand og tryggja frá byrjun að það fólk sem mun bara eiga kost á tímabundinni ráðningu njóti sem mestra réttinda.