Samgöngumál -- Icesave

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 10:31:43 (3782)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Erindi mitt er í rauninni beiðni um aðstoð til hv. varaformanns samgöngunefndar. Við þekkjum að víða er verið að spara í þjóðfélaginu og eðlilegt að gera það en við þurfum að horfa vel til þess hvar við gerum það.

Erindi mitt hingað upp er að ræða Laxárdalsheiði eða Laxárdalsveg þar sem hann tengir Vesturlandið við Norðurlandið og er varaleið milli Norðurlands og Suðurlands eða norðursvæðis og suðursvæðis þegar Holtavörðuheiði lokast. Um er að ræða 3,6 km kafla sem búið var að bjóða út, verktakar komnir á svæðið og búið að leggja í kostnað upp á allt að 50 millj. kr. vegna þessara vega. Síðan er ákveðið að fresta framkvæmdinni en eftir stendur að þessi kostnaður er orðinn til af líklega framkvæmdakostnaði upp á 80–100 millj. Það sem búið er að greiða fyrir er sá kostnaður sem er fallinn til vegna m.a. hönnunar, efnisvinnslu, landbóta og þess háttar þannig að það er ljóst að ekki verður haldið áfram með verkið. En mig langar að spyrja hv. varaformann samgöngunefndar hvort hann sé ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir því með okkur þingmönnum að þessi framkvæmd nái fram að ganga þar sem áætla má að sparnaður ríkisins af því að hætta við verði eingöngu um 20 millj. kr. þegar upp er staðið.

Ég ítreka það að mikilvægi þessa vegar er mjög mikið. Við gerum okkur líka grein fyrir því að þegar leiðir um Arnkötludal opnast mun umferð um þennan veg stóraukast því að þá verður komin betri tenging við hringveginn en verið hefur fyrir þá sem þurfa að fara Arnkötludalinn. Þá er þetta öryggisleið, þetta er varaleið milli landshluta þegar Holtavörðuheiði lokast sem gerist mjög oft. Það er að mínu viti ekki um mjög stóra upphæð að ræða og því fer ég fram á það við varaformann nefndarinnar að hann beiti sér með okkur þingmönnum fyrir að þetta nái fram að ganga.