Samgöngumál -- Icesave

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 10:45:08 (3788)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að ákveðið hefur verið að fresta þingfundum í næstu viku til þess að menn geti einbeitt sér að Icesave-málinu er ekki fjarstæðukennt fyrir virðulegar þingnefndir og forsvarsmenn þeirra í efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd að velta fyrir sér hvort það eru fleiri þættir af því Icesave-máli sem eru til umfjöllunar sem þyrfti að skoða betur vegna þess að tíminn er núna að vinna örlítið með okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

En það er ekki það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni heldur annar flötur á þessu undarlega máli sem Icesave-málið er. Það er alveg óhætt að segja að hið gamla breska heimsveldi gætti hagsmuna sinna vel í þeim leiðangri að knésetja íslensku þjóðina.

Nú kemur í ljós að það eru íslenskir skattborgarar sem eiga að borga lögmannskostnað Breta upp á 2 milljarða kr. Að mínu mati er þetta hámark ósvífninnar af hálfu viðsemjenda okkar, þessa glæsilegu viðsemjenda, og þetta er líka því miður hámark niðurlægingarinnar fyrir íslenska þjóð að við eigum að borga 2 milljarða kr. fyrir breska lögfræðinga í þeim leiðangri þeirra að gæta hagsmuna breska ríkisins. Ef við snúum þessu yfir á íslenska lögfræðinga þá þyrfti íslenskur lögfræðingur sem margir mundu telja að hefði ágætan útseldan taxta upp á 20 þús. kr. að vinna í 100 þúsund klukkutíma við þetta verkefni. Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, hvort hann telji að við hefðum gætt hagsmuna okkar með þessum hætti í þeim ójafna leik sem þessi viðskipti voru og hvort hv. þingmaður telji ekki í ljósi þess að svona ákvæði eru sett inn í samninginn, svo dæmalaus frekjuákvæði af hálfu þessara viðsemjenda okkar, að þetta sé kornið sem fylli mælinn í viðskiptum okkar við þessa þjóð. Ekki eru Hollendingarnir betri. Þeir gera allt til að gera stöðu okkar (Forseti hringir.) eins aumingjalega og hægt er.