Samgöngumál -- Icesave

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 10:56:41 (3793)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svaraði eiginlega í engu því sem ég spurði. Hann kvartaði undan því að málið væri flókið. Það er líka flókið. Það er tekið út úr tveim nefndum sem áttu að fá það til umfjöllunar án þess að þær væru búnar að fjalla um málið út í hörgul.

Nú hafa t.d. komið upplýsingar um ýmsar efnahagslegar ástæður. Seðlabankinn var ekki búinn að svara spurningum sem ég beindi til hans í efnahags- og skattanefnd og auk þess var hv. fjárlaganefnd búin að óska eftir því að háskólinn veiti upplýsingar um efnahagsmál. Ég hefði talið að það heyrði undir efnahags- og skattanefnd að óska eftir slíku. Ég legg til að hv. formaður og hv. fjárlaganefnd beini þessum erindum aftur til efnahags- og skattanefndar og hv. utanríkismálanefndar til að vinna í næstu viku til að við höfum eitthvað að gera. Mér finnst alveg fráleitt að einungis ein nefnd fjalli um þetta stóra mál og tvær séu búnar að skila því án þess að hafa klárað verkefni sitt. Ég legg því til að menn taki þá ákvörðun að beina þessu aftur til nefndanna þannig að þær geti farið að vinna af viti í efnahagsmálum og utanríkismálum því það er alveg heilmikið óunnið. Það á t.d. eftir að finna út úr því hvort það sé samhengi milli Evrópusambandsaðildarinnar og Icesave-málsins. Ég vil fá það alveg á hreint. Menn eru að tala úti í heimi út og suður um að þetta tengist allt saman og það virðast allir hafa þá trú nema stjórnarliðar á Íslandi, að þetta tengist. Ég vil að hv. utanríkismálanefnd fái það á hreint hvort þetta tengist eða ekki og lesi jafnvel erlend blöð og kynni sér þetta eða tali við sendiherra Hollands og spyrji hann út í ummæli utanríkisráðherra þeirra. Ég vil líka að hv. efnahags- og skattanefnd fjalli um skýrslu Seðlabankans og fái svör hans við þeim. Hann kom aldrei á fund nefndarinnar eftir að spurningarnar höfðu komið fram.