Ríkisútvarpið ohf.

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 12:12:41 (3808)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[12:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér framhaldsnefndarálit menntamálanefndar vegna skattheimtu, gjalds sem renna þarf til Ríkisútvarpsins. Hér er grundvallarbreyting á ferðinni frá því sem áður var þegar um var að ræða gjald til útvarpsins annars vegar og nú með breyttum lögum þegar úr verður skattur. Þá er hugmyndin að hann verði lagður á á sama hátt og skatturinn um Framkvæmdasjóð aldraðra hefur verið lagður á.

Það er ljóst að erfiðara er að fást við afslætti af sköttum en almennum afnotagjöldum. Hins vegar hafði Ríkisútvarpið samið við ákveðna aðila um afslátt af þeim gjöldum sem þar voru, og þótti það sjálfsagt, og var Ríkisútvarpið þá og er í eigu ríkisins. Það var því sanngjarnt að þessi þáttur yrði skoðaður nú, hvort sömu aðilar ættu með einhverjum hætti að njóta afsláttar frá þessum skatti og þá hvernig. Það er ekki á færi menntamálanefndar að ákveða breytingar á skattalöggjöfinni. Því vísar nefndin þeirri skoðun sinni til hæstv. ríkisstjórnar um að hún skoði þá hvort og hvernig hægt er að fara í að veita afslátt af þessum skatti.

Það er hins vegar rétt eins og hv. 7. þm. Suðurk., Eygló Harðardóttir, ræddi hvort allir lögaðilar eigi að greiða þennan sama skatt. Á að horfa til þeirra með tilliti til tekna fyrirtækjanna? Þar erum við komin í einhvern allt annan farveg en upphaflega var gert ráð fyrir en sjálfsagt að skoða og þá með hvaða hætti.

Þá komum við kannski að kjarna málsins að þegar við breytum þáttum eins og þessum og erum að fara úr afnotagjöldum í skatta þurfum við kannski að skoða töluvert nánar hvernig við erum að breyta, af hverju við erum að breyta og hvað á að fylgja í kjölfarið. Við stöndum kannski frammi fyrir því hér og nú að sú löggjöf sem Alþingi afgreiddi um Ríkisútvarpið hefur líklegast ekki verið jafnvönduð og Alþingi taldi vera. Á þessu er ákveðinn galli sem menntamálanefnd beinir til hæstv. ríkisstjórnar að hún skoði og fari yfir. Þetta er enn einn þáttur í því að á hinu háa Alþingi þurfum við sem hér sitjum að vanda okkur við löggjöfina, skoða vel alla þætti í þeim breytingum sem hér eru gerðar þannig að þingið þurfi ekki sí og æ að vera að fá til baka lög vegna tæknilegra ágalla eða einhverra annarra ágalla á einhverri löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt. Það sýnir okkur að við þurfum að vanda okkur betur við löggjöfina og fara yfir alla þá þætti sem hún kann hugsanlega að snerta til þess að ekki komi til þess aftur og aftur að við þurfum að taka inn löggjöf, breyta henni eða vísa til aðila um að skoða frekar.

Frú forseti. Þetta er sanngirnismál sem menntamálanefnd er sammála um að beina til ríkisstjórnarinnar að skoða frekar.