Bankasýsla ríkisins

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 12:39:10 (3811)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar vegna frumvarps til laga um Bankasýslu ríkisins. Nefndarálitið er að finna á þskj. 253. Síðan leggjum við einnig fram breytingartillögu, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Margrét Tryggvadóttir, auk mín, á þskj. 289 sem ég mun líka fjalla um.

Eins og fram kemur í minnihlutaálitinu höfum við gert verulegar athugasemdir við þetta frumvarp og ég vísa í álitið en einnig í þær umræður sem voru áðan um eigendastefnuna og tek undir með hv. nefndarformanni að þessar umræður skarast allar saman. Þessu frumvarpi er ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar sem eru góð markmið sem við tökum að sjálfsögðu undir. En það sem minni hlutinn gerir athugasemdir við hér er að við erum efins um hvort þessum góðu markmiðum verði endilega framfylgt með þessu frumvarpi, verði það að lögum.

Við erum ekki sannfærð um að þessari umsýslu sé best fyrir komið í ríkisstofnun og um það urðu miklar umræður í nefndinni. Við bendum á í minnihlutaáliti okkar að í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu kemur í ljós að innan flestra ríkja OECD hefur umsýslan smám saman verið færð til eins ráðuneytis þannig að umsýslan verði samræmd og er ekki endilega höfð í sérstökum stofnunum. Ríkisendurskoðun hefur einnig bent á að stofnuninni sé ætlað að sinna verkefnum sem fjármálaráðuneytið er fullfært um að sinna og að nú á tímum niðurskurðar í öllu ríkisapparatinu er lögð til ný ríkisstofnun sem kosta mun íslenska skattgreiðendur 70–80 millj. kr. árlega. Við teljum, og segjum það í nefndaráliti, að slíkt sé erfitt að réttlæta á þessum tímum.

Við í minni hlutanum teljum bæði hreinlegra og eðlilegra að ef ætlað er að koma á miðstýringu í bankakerfinu verði það þá gert með minni yfirbyggingu og mun minni tilkostnaði úr fjármálaráðuneytinu sjálfu en að farin verði sú leið að ráðherra handvelji sitt fólk í ríkisstofnun til að framfylgja þessari stefnu.

Bankasýslunni er ætlað að framfylgja eigendastefnunni, eins og fram hefur komið, og þegar nefndarálitið var ritað var sú stefna ekki komin fram. Hún hefur komið fram en í ljósi þess hversu miklar breytingar hafa orðið nú síðustu vikuna er sú gagnrýni sem kemur í nefndarálitinu enn í gildi. Við teljum að eigendastefnan hefði þurft að liggja fyrir þegar þetta var lagt fram. Síðan er það atriði sem við leggjum mikla áherslu á og tökum undir með fjölmörgum umsagnaraðilum, að betur hefði farið á því að eigendastefnan væri ekki fyrir allt fjármálakerfið í heild sinni heldur fyrir hverja fjármálastofnun fyrir sig og þá aðallega í ljósi samkeppnissjónarmiða. Mun ég fara ítarlegar yfir það seinna í máli mínu.

Það er eðlilegt, nú þegar fjármálastofnanirnar eru komnar á hendur ríkisins, að gerð sé krafa um að fjármálaráðherra hafi ekki afskipti af stjórn bankanna. Það markmið er gott og gilt. Við fyrstu sýn er það einmitt markmið þessara laga, að færa þetta frá fjármálaráðherra, en þegar málið er skoðað nánar eru fjármálaráðherra ætluð mikil völd innan þessarar stofnunar og þau völd felast í því að ráðherra velur þriggja manna stjórn og ræður svo framkvæmdastjóra. Við teljum eðlilegra að ráðið verði í þessa stjórn með öðrum hætti og aðrar stöður stofnunarinnar einnig á faglegri forsendum, t.d. að fara með það í ráðningarferli hjá ráðningarstofu eða hjá óháðri valnefnd. Undir nefndarálitið skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, Guðlaugur Þór Þórðarson, Margrét Tryggvadóttir og Eygló Harðardóttir.

Breytingartillaga sú sem ég nefndi áðan er flutt, eins og ég segi, af okkur þremur, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Margréti Tryggvadóttur, auk mín, og er í tveimur liðum. Þar segir í 1. gr. að við gerum tillögu að breytingu á 10. gr., að í stað þess að lögin taki gildi nú þegar taki þau gildi 1. október 2009. Röksemdin fyrir því er sú að þá liggur fyrir hvernig eigendastrúktúrinn verður. 30. september nk. á það að liggja fyrir samkvæmt áætlunum þannig að við leggjum til að þessi stofnun verði ekki sett á laggirnar fyrir þann tíma. Við setjum einnig ákvæði til bráðabirgða í 2. gr. sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. um gildistöku taka lögin einungis gildi ef ríkið er þá meirihlutaeigandi Landsbanka, Nýja Kaupþings og Íslandsbanka.“

Með þessu leggjum við áherslu á að ef það ferli sem nú er hafið og gengur vonandi eftir, þ.e. að kröfuhafar yfirtaki tvo af þremur bönkunum, teljum við í raun óþarft að setja á fót þessa ríkisstofnun og setjum þetta skilyrði við gildistökuákvæðið. Ef við verðum í þeirri stöðu á þeim tíma, 1. október, að ríkið eigi Landsbankann einan og lítinn hluta í Kaupþingi og Íslandsbanka sé þetta í raun óþarft. Þá er ég algjörlega ósammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem sagði að þrátt fyrir þær breytingar á aðstæðum væri þessi ríkisstofnun algjörlega þörf. Ég verð nefnilega að segja að ég hræðist mjög að menn séu hér farnir að setja á fót ríkisstofnanir bara til þess að hafa heimildina í lagi. Mér finnst það hættulegt, mér finnst það í raun stórhættulegt, og ég ítreka það sem ég sagði í morgun, þetta ber þannig að að erfitt er að sjá hvort er mikilvægara, planið sjálft og stofnunin sjálf eða þau markmið sem henni er ætlað að ná fram. Það sem er að gerast hérna er allt annað en lagt var upp með. Það eru ekki boðleg rök að ætla að segja að það sé sami hluturinn, það skipti ekki máli hvort um sé að ræða þrjá banka eða einn, að við þurfum samt sem áður að hafa þetta svona.

Markmiðið um að færa þetta frá pólitíkinni er gott. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær að í rauninni væri ekki um annað að ræða en annaðhvort að hafa þetta eins og lagt er til eða hafa þetta á borðshorninu í fjármálaráðuneytinu. Hann spurði okkur sjálfstæðismenn sérstaklega hvort það væri það sem við vildum. Ég tel að þetta séu ekki þeir tveir einu valkostir sem um er að ræða og þótt borðshornið á skrifborði fjármálaráðherrans sé eflaust ágætt tel ég, og tek þar undir með Ríkisendurskoðun, að það sé algjörlega boðlegt að hafa þetta inni í fjármálaráðuneytinu, sérstaklega núna þegar eignarhaldið kemur til með að breytast, vonandi. Og ég treysti því ágæta fólki sem vinnur þar til að losa hæstv. fjármálaráðherrann við þetta af borðshorninu og taka þetta til sín annars staðar í ráðuneytið.

Það er ekki verið að færa þetta algjörlega frá pólitíkinni. Eins og fram hefur komið mun fjármálaráðherrann eftir sem áður skipa stjórn þessarar Bankasýslu. Hann mun tilnefna og skipa, jú, jú, verið er að setja inn einhver breytingarákvæði um að viðskiptanefnd verði leyft að segja álit sitt á því. En eins og ég sagði í þeirri nefnd er ég alveg búin að átta mig á því, þar sem ég er í minni hluta þar, að það er ekkert sérstaklega mikið gefið fyrir álit okkar í minni hlutanum. Ég treysti því ekki að athugasemdir mínar verði teknar til greina og þær hafi einhver áhrif á þessa stjórnarskipan. Keisarinn er ekki í neinum fötum í þessum efnum. Verið er að færa þetta frá pólitíkinni en það er ekki gert neitt annað en að setja einn millilið. Eins og bent hefur verið á, það gerði m.a. hv. þm. Margrét Tryggvadóttir í ræðu sinni í morgun, er mjög auðvelt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að koma hverjum þeim sem hann vill þarna að. Þá takmarka ég það ekki endilega við núverandi hæstv. fjármálaráðherra, heldur verður fjármálaráðherranum, hver sem hann er, ekki skotaskuld úr að koma sínu fólki þarna að. Ef við segjum í öðru orðinu að við ætlum að takmarka pólitíska valdið og í hinu orðinu að láta fjármálaráðherrann einan skipa hlýtur hver maður að sjá að það gengur ekki upp.

Mér finnst algjörlega fráleitt að hafa þetta svona. Það sem ég vakti athygli á í morgun var að ég hef skilning á því að fjármálaráðherranum sé vandi á höndum, við kvörtum hér og kveinum í minni hlutanum yfir því að hlutirnir gangi ekki nógu hratt og við þurfum að gera þetta áður en þetta gerist og að eigendastefnan verði að koma áður en Bankasýslan kemur. Og nú er eigendastefnan komin en þá er hún ekki nógu góð vegna þess að aðstæður hafa breyst. Það er skiljanlegt og ég hef fulla samúð með fjármálaráðherra eins og ég sagði áðan. En þannig er þetta bara og þess vegna verðum við að taka þetta verkefni og ekki missa það út úr höndunum þannig að verkefnið sem slíkt fari að eiga eitthvert sjálfstætt líf en ekki það markmið sem við höfum og deilum öll, að koma bankakerfinu sem bestu í gagnið.

Núna, þegar við höfum þennan mikilvæga áfanga að baki sem vakti hjá manni miklar vonir um að uppbyggingin yrði miklu jákvæðari og miklu hraðari en maður hefur þorað að vona síðustu mánuðina, megum við ekki festast í slíkri ríkisstofnunarhugsun að það geti ógnað þeirri jákvæðu þróun. Ríkisstofnanir eru nefnilega þannig að ég leyfi mér að fullyrða að það sé mun auðveldara að stofna þær en að leggja þær niður. Ég er viss um að verði Bankasýslu ríkisins komið á laggirnar verði henni stýrt af ótrúlega metnaðarfullum ríkisstarfsmönnum sem munu gera allt hvað þeir geta til að viðhalda sjálfum sér og reka sína stofnun, finna henni hlutverk og tilgang um aldur og ævi. Ég meina ekkert illt með því, en það er bara það sem gerist. Það er fullt af ríkisstofnunum sem við gætum lagt niður — (ÁI: Sjúkratryggingastofnun til dæmis.) hv. þm. bendir á Sjúkratryggingastofnun, ég held reyndar að þar deilum við ekki skoðunum um tilgang. Sumar stofnanir hafa meiri tilgang en aðrar og ég er ekki að segja að við þurfum að leggja allar ríkisstofnanir niður. Áður en við förum af stað við að setja á fót ríkisstofnun sem við vitum ekki hvort þarf, vegna þess að við erum ekki komin á enda með hugsunina — það er allt búið að breytast bara í þessari viku, forsendur eru breyttar — þurfum við að hugsa málið til enda. Þetta er ekki Bankasýsla ríkisins, þetta er Landsbankasýsla ríkisins núna. Ég leyfi mér að taka undir með þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar, þar á meðal Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og Ríkisendurskoðun, sem segja að við þurfum að gæta okkar í þessu t.d. með samkeppnissjónarmið í huga. Hvernig ætlum við að tryggja að samkeppnissjónarmiðum verði fullnægt, t.d. núna þegar ríkisbankinn verður kannski einn í fullri eigu, Landsbankinn, 100% í eigu ríkisins? Síðan eru, eins og fram kom á fundi nefndarinnar, 10–12% í Kaupþingi og Glitni. Hvernig á að tryggja að upplýsingar fari ekki á milli um það sem er að gerast í þessum stjórnum, í þessum bönkum, þegar Bankasýslan er með 2–3 starfsmenn og þriggja manna stjórn? Hvernig á hinn nýi, vonandi, eigandi Kaupþings að vera viss um að stjórnarmaður ríkisins, fulltrúi ríkisins í stjórn, fulltrúi þessa 10% eiganda, beri ekki á milli upplýsingar sem gætu komið ríkisbankanum Landsbankanum betur í samkeppninni?

Þetta eru sjónarmið og ég vísa í umsögn Samkeppniseftirlitsins þar sem það gerir líka athugasemdir við að það sé ein eigendastefna, eins og ég vék að áðan, að betra væri að vera með eigendastefnu fyrir hvern og einn banka vegna þess að meiningin er ekki að steypa alla í sama mót, eða hvað? Ein eigendastefna, ein ríkisstefna um hvernig bankakerfið eigi að vera — hvað ef sú stefna er röng? Hvað ef sú stefna klikkar? Samkeppniseftirlitið segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að mótuð verði sérstök stefna um rekstur hvers fjármálafyrirtækis sem Bankasýslan kemur að. Þannig er heppilegt að skýrt sé að ríkið hafi almenna eigendastefnu sem lúti að skipan stjórna, skyldum stjórnarmanna, samskiptum milli eigenda og stjórnar og starfskjör stjórnar og æðstu stjórnenda en jafnframt að mótuð sé sérstök eigendastefna fyrir hvern og einn banka um rekstraráherslur þeirra, viðskiptastefnu og rekstrarmarkmið. Heppilegast er að sérstaka eigendastefnan sé mótuð á vettvangi stjórnar hverrar fjármálastofnunar fyrir sig eftir atvikum að höfðu samráði við Bankasýsluna.“

Þetta er skrifað áður en nokkuð lá fyrir um að kröfuhafarnir yrðu mögulega eigendur að bönkunum. Þetta þarf að hugsa, virðulegi forseti, og við verðum að hugsa hugsunina til enda til þess að vera tilbúin og til þess að geta gert hlutina sem best, ekki bara troða fyrirtækjunum inn í einhverja stofnun sem þarf að búa til bara til að fjármálaráðherra hafi heimildina. Það kom fram á fundi nefndarinnar, hjá fulltrúa fjármálaráðuneytisins, að eignaumsýslufélagið hafi ekki verið stofnað og jafnvel að það verði ekki stofnað — en það er gott að hafa heimildina. Hvers lags bull er þetta? Gott að hafa heimildina. Eigum við ekki að stofna einhverjar fleiri stofnanir, bara af því að það er svo gott að hafa heimildina? Skýrslustofnun ríkisins var í ágætum sjónvarpsþætti, það held ég að sé hámark (Gripið fram í.) skriffinnskunnar. Ég held að við ættum að líta á það, bara til að hafa … (MT: Förum í ESB í staðinn.) Já, förum í ESB í staðinn, kallar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fram í. Það kemur í staðinn fyrir það.

Það sem ég legg áherslu á er að frumvarpið og þessi eigendastefna sem fyrir liggur miðar að því að ríkið verði ráðandi aðili í öllum bönkunum. Vonandi verður það ekki, tökum mið af því. Förum a.m.k. í gegnum þá hugsun að það gæti verið betra að gera þetta á einhvern annan hátt vegna þess að forsendur hafa breyst. 70–80 milljónir á ári er slatti af peningum. Ég bendi hv. þingmönnum á að ræða 70–80 milljónir á ári við forsvarsmenn lögreglustjórans í Reykjavík, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Ég er viss um að hægt væri að koma þeim peningum í lóg. Áskrift fjármálaráðuneytisins fær 680 millj. kr. á fjárlögum á ári. Þeir hafa sinnt þessu eigenda- og samræmingarhlutverki síðustu 10 mánuði og hafa gert það af mesta mætti og ég trúi þeim og treysti alveg til að halda áfram, sérstaklega — (ÁI: Hverjum?) fjármálaráðuneytinu — ef verkefnið verður minna en lagt var upp með þegar til stóð að setja Bankasýsluna á fót. Það er stórhættulegt að vera með þá hugsun að skella þessari ríkisstofnun á, það er betra að hafa heimildina. Þetta er nokkuð sem ég skil ekki.

Ég vék að því áðan að hættulegt væri að hafa eina eigendastefnu fyrir allt kerfið og vísaði þar í umsögn Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt kom umsögn frá bankaráði Landsbankans þar sem einnig er vakin athygli á þessu og þar er einmitt notað það orð sem ég hef notað hér, „stórhættulegt“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkið situr uppi með stjórn allra helstu fjármálafyrirtækja landsins og hugmyndir um að miðstýra þeim líkt og hér eru settar fram eru stórhættulegar íslenskri fjármálastarfsemi. Grundvallaratriði í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað á íslenskum fjármálamarkaði er að gefa þarf fjármálafyrirtækjum svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Það verður ekki gert með einum samræmdum hætti heldur með því að leyfa hverju fyrirtæki fyrir sig að meta hver heppilegasta leiðin er að mati stjórnar þess.“

Ég tek undir þessi orð. Það sem ég hef líka áhyggjur af er að þrátt fyrir að það segi í eigendastefnu ríkisstjórnarinnar og að fram komi í frumvarpinu að bankaráðin beri ábyrgðina, það sé alveg klárt, held ég að þegar maður er kominn með eitthvert yfirbankaráð í Bankasýslunni aukist sú hætta að ábyrgðin falli á milli laga, að bankaráðið bendi á Bankasýsluna og Bankasýslan á bankaráðið. Það verður ákvörðunarfælni vegna þess að það liggur ekki skýrt fyrir hvernig eigi að koma þessu við og ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis er hætta á að menn fari að benda hver á annan. Ég tel að við eigum frekar að setja þetta í þann farveg að ábyrgðin verði skýr. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hún eigi mikið eftir af ræðu sinni. Telur hv. þingmaður að hún muni nota ræðutíma sinn? Ef svo er hugar forseti að því að gera þinghlé í hálftíma fyrir matarhlé.)

Virðulegur forseti. Þegar forseti hóf mál sitt átti þingmaðurinn eftir 7 mínútur og 47 sekúndur en nú eru þær reyndar bara sjö þannig að ég óska eftir að fá að nýta allan minn tíma og geri hlé á máli mínu ef það er það sem forseti óskar eftir.