Bankasýsla ríkisins

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 13:32:23 (3812)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:32]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Já, það er best að finna þann stað sem ég var komin þegar gert var hlé vegna hádegisverðar og treysti ég því að allir séu mettir og sælir.

Það sem ég vildi ítreka og hef verið að rekja í máli mínu er að hversu göfug sem markmiðin eru með þessu frumvarpi er ekki víst að þau náist endilega með þessari aðferð. Þess vegna höfum við í minni hlutanum lagt áherslu á að við stöldruðum aðeins við, hægðum á ferðinni og reyndum að skoða hlutina í samhengi til að við gætum einbeitt okkur einmitt að þessum markmiðum en ekki að því að þröngva þessu verkefni inn í eitthvert plan sem hefur tekið breytingum.

Ég ætla aðeins að ræða einstök atriði í lokin en vil þó áður en ég vík frá umsögnum aðeins fara yfir athugasemdir sem fram komu frá Samtökum atvinnulífsins varðandi þetta mál. Þær tengjast einmitt eigendastefnunni sem við ræddum í morgun. Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því að jafnvel gæti þessi stofnun verið óþörf og vísa máli sínu til stuðnings í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins. Samtökin telja stofnunina sem sagt óþarfa. Það segir, með leyfi forseta, í umsögn Samtaka atvinnulífsins:

„Þessi stefna um erlent eignarhald er sett fram í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna, dags. 25. júní 2009, en þar segir: „Eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum feli í sér að erlendir aðilar geta eignast meiri hluta í einhverjum nýju bankanna og eftir atvikum öðrum fjármálafyrirtækjum. Þannig verði m.a. reynt að tryggja eðlilegan aðgang að erlendu lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili. Endurskipulagningu á eignarhaldi bankanna verði lokið 1. nóvember 2009.““ Þarna ættu menn að gleðjast yfir fréttum um samkomulag milli kröfuhafa og stjórnvalda en svo segir áfram, með leyfi forseta: „Samtök atvinnulífsins draga mjög í efa að þörf sé á að koma á fót nýrri ríkisstofnun, Bankasýslu ríkisins. Gangi eftir sú eigendastefna sem fyrirheit eru gefin um í stöðugleikasáttmálanum verður slík stofnun óþörf. Mæla Samtök atvinnulífsins með að öll áform um stofnun Bankasýslu ríkisins verði lögð til hliðar a.m.k. þar til fyrir liggur hver niðurstaðan verður í eignarhaldi bankanna.“

Þetta er nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa. Ég tek algerlega undir sjónarmið Samtaka atvinnulífsins og óska hér með eftir því að málið verði tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég held að við í viðskiptanefnd ættum í alvörunni að setjast yfir þetta með það að markmiði að finna á því þann flöt að við getum tekið tillit til allra þeirra atburða sem eru að gerast og reynt að gera stefnuna þannig úr garði að það auki líkurnar á að markmiðunum verði náð.

Að lokum, virðulegi forseti, vildi ég aðeins ræða einstök atriði. Það er á nokkrum stöðum, bæði í frumvarpinu um Bankasýsluna og svo líka í eigendastefnunni, lögð áhersla á mjög fróm markmið hvort sem þau eiga að vera jafnrétti eða jafnræði eða umhverfismál eins og hæstv. fjármálaráðherra vék að í morgun. Ég verð að segja að mér finnst alltaf, ég vil ekki segja kostulegt en það hlægir mig að ákveðnu leyti þegar ég verð vör við það í viðskiptanefnd að í hverju málinu á fætur öðru er sett inn klausa um að við þurfum að gæta að jafnrétti kynjanna. Ekki misskilja mig, ég er mjög hlynnt jafnrétti kynjanna og vil að því verði komið á eins víða og mögulegt er.

Það er ekki nóg að segja það, það þarf líka að standa við stóru orðin. Í breytingartillögu meiri hlutans er lögð áhersla á að ítreka þessi jafnréttissjónarmið, en hvernig er svo framkvæmdin hjá hæstv. ríkisstjórn? Maður þarf ekki annað en að rifja upp skipan ríkisstjórnarinnar sjálfrar til að sjá að ekki er alltaf farið eftir þeim fallegu markmiðum sem sett eru fram. Ég má til með að vekja athygli á annarri nýlegri nefndaskipan ráðherra í ríkisstjórninni, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þar sem skipuð var nefnd sem átti að endurskoða stjórn fiskveiða, fiskveiðistjórnarkerfið. Þar voru skipaðir ýmsir fulltrúar. Hvor ríkisstjórnarflokkurinn fékk tvo fulltrúa og a.m.k. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur úr stjórnarandstöðunni. Ég veit ekki hvort Borgarahreyfingin á þar fulltrúa en ég vissi af því að tilnefndir voru tveir fulltrúar frá hvorum flokki til að hægt væri að gæta þess að nefndin yrði ekki bara skipuð körlum eða bara skipuð konum. Ég vissi það vegna þess að ég var annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Síðan þegar nefndin er tilkynnt vakti það óneitanlega athygli mína að stjórnarflokkarnir voru með hvor sinn fulltrúann, karl og konu í hvort skipti sem leit vel út. Síðan kom fulltrúi Framsóknarflokksins og það var hv. fulltrúi Gunnar Bragi Sveinsson, ég geri enga athugasemd við það, ég veit ekki hvaða kona var tilnefnd líka, og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sem er mætur maður og er ég ekki að gera ágreining um það. Þá fannst mér nefnilega svolítið skrýtið vegna alls tals um jafnrétti, vegna alls tals um að við þurfum alltaf að hafa uppi þessa klausu, verðum öll að hugsa jafnræðið. Þrátt fyrir þetta var passað upp á að karlarnir væru fleiri þannig að ég hvet þingmenn stjórnarflokkanna sem setja þessi mál sífellt í öndvegi að hugsa til þess hvernig framkvæmdin á þessum málum er. Þess vegna segi ég að markmiðin geta verið ákaflega fögur, hvort sem það er í eigendastefnu ríkisstjórnarinnar eða í lögum um Bankasýslu, en við þurfum að athuga hvernig þetta er í framkvæmd.

Ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, á þeim orðum að ég vara við því að ríkisstofnanir séu settar á fót bara til að hafa heimildina og sjá svo til hvort hægt er að nota hana. Það er stórhættulegur hugsunarháttur.