Bankasýsla ríkisins

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 13:54:35 (3818)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Við lifum á einkennilegum tímum, tímum þar sem svo margt sem við tókum sem sjálfgefnum hlut er ekki öruggt lengur. Það krefst þess að við þorum að hugsa út fyrir rammann, leggja fram skapandi og frjóar lausnir. Mér fyndist eðlilegt að hver fjármálastofnun setti sér sín eigin markmið, viðmið og fyndi sína eigin leið til endurreisnar og með hvaða hætti hún getur lagt lóð á vogarskálarnar í öllu samfélaginu. Það gerist ekki með miðstýringu.

Hér er lagt upp með það markmið að takmarka pólitískt vald innan bankakerfisins, sem er gott og gilt en skrefið er ekki stigið til fulls. Þess í stað á fjármálaráðherra að velja fólk í stjórn sem svo ræður forstjóra stofnunarinnar. Nú hefur komið fram breytingartillaga um að hv. viðskiptanefnd skuli segja álit sitt á valinu en mér finnst það ekki faglegt. Það þarf enga sérstaka snilligáfu til að sjá að það er hægðarleikur fyrir fjármálaráðherra að hafa bæði tögl og hagldir í Bankasýslunni. Ég mundi vilja að hér yrði faglega staðið að ráðningu starfsfólks ef við eigum á annað borð að koma þessari stofnun á fót.

Frú forseti. Á minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að flest lönd innan OECD hafi smám saman fært forræði eignarhluta til eins ráðuneytis þannig að umsýslan verði samræmd og mælir OECD með því fyrirkomulagi. Ríkisendurskoðun hefur einnig bent á að Bankasýslunni sé ætlað að sinna verkefni sem fjármálaráðuneytið virðist að flestu fullfært um að leysa af hendi og það muni auka útgjöld ríkisins um 70–80 millj. kr. árlega. Þeir fjármunir kæmu sér örugglega vel víða t.d. hjá lögreglunni eða í heilbrigðiskerfinu.

Mig langar líka að tala um samkeppnissjónarmið. Nú blasir við gerbreytt staða. Ef til vill verða tveir af þremur bönkum í eigu annarra en ríkisins, ef til vill erlendra aðila. Ríkið mun samt sem áður eiga 10–12% í þeim bönkum. Ég get ekki séð hvernig hægt er að skapa heilbrigt samkeppnisumhverfi við þær aðstæður að Bankasýslan eigi bæði að stýra ríkisbanka og fara með eignarhluti ríkisins í bönkum sem eru að mestu leyti í eigu annarra og í samkeppni við ríkisbankann. Nú er kerfið í hraðri þróun og við vitum ekki hvernig það mun á endanum líta út. Mér finnst óðs manns æði að koma þessari Bankasýslu upp núna þegar við vitum ekki hvernig kerfið mun verða. Þarf virkilega heila ríkisstofnun til að fara með eignarhlut í einum banka? Er ekki hreinlegra að Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið fylgist með því sem þar fer fram í stað þess að setja upp leikrit þar sem fjármálaráðherra velur í öll hlutverk?

En hvað eigum við að gera í staðinn? Ég er ekki viss um að við þurfum að gera neitt. Það fer hins vegar eftir því hvernig málin þróast. Endurfjármögnun bankanna hefur dregist og nú stefnum við á miðjan ágúst. Væri ekki ráð að doka við og sjá hvort raunveruleg þörf sé fyrir slíka stofnun áður en við spanderum öllum þessum peningum í að búa til bákn sem kannski er óþarft?