Bankasýsla ríkisins

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 14:20:54 (3821)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf ánægjulegt að fara í meðsvar eins og hv. þm. Pétur Blöndal vildi fara að kalla þennan lið. Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði þegar hún vildi útskýra mál sitt og ég tek því líka þannig að hún sé raunar sammála mér að við séum náttúrlega að tala um alveg gífurlega fjármuni sem eru þarna undir.

Ég verð hins vegar líka að segja það að ég hef töluverðar áhyggjur af hinum 50 prósentunum sem eru hugsanlega að fara í hendurnar á skilanefndunum. Við erum að leggja í mikla vinnu í að móta ákveðna eigendastefnu og starfsumhverfi fyrir þessi 50–60% af bankamarkaðnum en erum held ég bara rétt byrjuð að krafsa í yfirborðið hvað varðar skilanefndirnar og hlutverk þeirra.

Síðan get ég algjörlega tekið undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði um að það væri mjög ánægjulegt að við færum að sjá einhvern árangur af öllum þessum áætlunum og markmiðum um aukið jafnrétti og þá sérstaklega hvað varðar atvinnulífið. Ég held að við hérna á þinginu höfum tekið stór skref t.d. núna við síðustu kosningar. Bara í mínu kjördæmi á listi hv. þingmanns mikinn heiður af því að við náðum 50% hlutfalli kvenna sem þingmenn Suðurkjördæmis. Ég er því alveg sannfærð um að þetta sé eitthvað sem hún vil gjarnan sjá, jafnara hlutverk kynjanna.

Ég ætla hér með bara að ljúka mínu meðsvari og þakka fyrir.