Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 15:15:10 (3829)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Mig langar aðeins samt til að hnykkja hér á einu því að hún virðist ekki vera sammála mér þegar ég sagði að verið væri að færa prófkjör yfir á kjördag. Það er verið að færa prófkjör yfir á kjördag. Við getum líka látið það heita að raðað sé á listana á kjördag. Í raun og veru er breytingin í þessu kerfi sú að kjósandinn velur sér á kjördag fyrst lista til að kjósa og svo raðar hann þeim einstaklingum sem hann vill sjá í fyrsta, öðru, þriðja, fjórða sæti o.s.frv. Í aðdraganda svona kosninga er það listinn sem er í framboði allur og þeir aðilar sem hafa gefið kost á sér óraðað á listann sem eru raunverulega að heyja kosningabaráttuna því að leiðtogi listans verður ekki ljós fyrr en búið er að telja atkvæðin að afloknum kosningum. Þetta er kannski leiðinlegt orðaval að tala um að það sé búið að færa prófkjörið yfir á kjördag en þannig er það samt, hugsunin er sú sama, og ég var að reyna að varpa ljósi á það hvað þetta frumvarp gengi raunverulega út á.

Mig langar aðeins til að vitna í frumvarpið á bls. 16, þar sem lýst er á stuttan og góðan hátt hvernig írska kerfið virkar, með leyfi forseta: „Annars vegar er það persónukjör og í ríkari mæli en lagt er til með þessum frumvörpum þar sem kjósendur fá ekki einungis að raða frambjóðendum eins flokks heldur geta raðað að vild saman frambjóðendum ólíkra flokka.“ Þessari hugmynd er ég afskaplega hrifin af og hefði óskað að frumvarpið gengi alla þessa leið. Það gerist ekki í þessari umferð en við sjáum til hvað setur.