Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 24. júlí 2009, kl. 15:18:49 (3831)


137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:18]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsögu um þetta mál, persónukjör. Ég vil byrja á því að segja að ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið til umræðu. Eins og hefur komið fram í ræðum þeirra hv. þingmanna sem hafa talað er markmiðið með því að auka áhrif kjósenda í gegnum persónukjör og þar með auðvitað að efla lýðræðið, falleg hugsun, svo langt sem hún nær, hún er góð, hún er lýðræðisleg og erfitt að setja sig upp á móti hugmyndinni.

Ég vil hins vegar, frú forseti, halda til haga nokkrum atriðum sem ég set ákveðin spurningarmerki við á þessum tímapunkti. Ég er ekki að segja að ég sé á móti þessum atriðum en ég velti fyrir mér hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa. Auðvitað á málið eftir að fara til hv. allsherjarnefndar til umfjöllunar og fara þá í umsagnarferli og það á eftir að kalla eftir hugmyndum og tillögum frá ýmsum hagsmunasamtökum, sveitarfélögum og öðrum. Eins og áðan kom fram var nokkuð breið samstaða um það hvernig þessari vinnu var háttað. Samband ísl. sveitarfélaga tók þátt í þessum vinnuhópi og lagði sitt af mörkum þar og ég veit að Samband ísl. sveitarfélaga er mjög áfram um að þetta frumvarp verði að lögum og verði að veruleika sem allra fyrst. Hins vegar veit ég það líka að skoðanir eru skiptar meðal ýmissa sveitarstjórnarmanna um hugmyndina sem býr að baki persónukjöri.

Ég ætla ekki að hafa þessa umræðu langa, frú forseti, enda stefnt að atkvæðagreiðslu hér mjög fljótlega, en vil þó reifa þrjú atriði sem ég vil velta upp í umræðunni. Í fyrsta lagi er það sem lýtur að kynjahlutföllum á framboðslistum. Ég held að við verðum að hugleiða það mjög rækilega hvaða áhrif það hefur á hlutfall kvenna t.d. í sveitarstjórnum og á Alþingi ef frumvarpið verður að lögum óbreytt. Við höfum nokkuð glæsta sögu, Íslendingar, varðandi kynjajafnrétti og konum hefur farið fjölgandi — þó að auðvitað hafi stundum komið bakslag — konum hefur farið fjölgandi á þingi og í sveitarstjórnum. En það er auðvitað alveg klárt að þetta fyrirkomulag tryggir engan veginn að það verði jafnt hlutfall karla og kvenna í þeirri útkomu sem verður niðurstaðan í persónukjöri.

Það er kannski gaman að geta þess, frú forseti, án þess að það hafi eitthvert sérstakt gildi hér í umræðunni, að fyrsta persónukjörið sem fór fram á Íslandi var árið 1916. Nú er ég ekki að líkja aðstæðum á Íslandi í dag við aðstæður á Íslandi árið 1916 en engu að síður fór þá fram kjör til Alþingis eftir ákveðnar breytingar sem gerðar voru á kosningalögum. Það var í fyrsta skipti á Íslandi sem kjósendur gátu breytt númeraröð frambjóðenda frá þeirri númeraröð sem kom frá flokkunum. Þetta hafði þau áhrif að frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir færðist niður um sæti. Ef persónukjör hefði ekki verið árið 1916 hefði frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir orðið fyrsta konan til þess að taka sæti á Alþingi Íslendinga. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, ég er ekki að segja að aðstæður séu eins núna og þær voru árið 1916 en þetta er hins vegar saga sem ég held að við eigum að taka mark á vegna þess að jafnréttisbaráttan hefur sýnt okkur það að við verðum alltaf að vera á vaktinni. Ég vil nefna þetta sem fyrsta atriðið, frú forseti.

Annað atriði sem ég vil nefna lýtur að kostnaði frambjóðenda flokka sem fara í gegnum persónukjör. Ég held að við verðum að átta okkur á því að eins og frumvarpið er sett fram núna er gert ráð fyrir því að flokkarnir sem bjóða fram til kosninga ákveði fyrst hvaða fulltrúar fari inn á óraðaða lista í persónukjöri. Ef við tökum dæmi af flokki X sem ákveður að stilla upp tíu frambjóðendum á óraðaðan lista, þá þarf flokkur X að byrja á því að velja þessa tíu óröðuðu frambjóðendur. Flokkurinn þarf í fyrsta lagi að ákveða hvort fara eigi fram prófkjör, forval eða uppstilling. Við vitum hvernig flokkar á Íslandi á síðustu árum hafa hagað sér, að uppstillingar eru á algjöru undanhaldi og það eru prófkjör eða forvöl sem eru undantekningarlaust notuð. Þarna kemur því fyrsta prófkjör eða forval sem frambjóðandi flokks þarf að fara í gegnum. Þegar frambjóðandinn er síðan kominn í gegnum þá síu og kominn á óraðaðan lista flokks síns fer fram galopið prófkjör meðal allra kjósenda í kjördæmi viðkomandi frambjóðanda. Ég held að við hv. þingmenn eigum að ræða kosti og galla þess fyrirkomulags, ekki síst í ljósi þeirrar sögu sem við þekkjum af kostnaði við prófkjör frambjóðenda almennt í gegnum tíðina. Þess vegna tel ég afar brýnt að litið verði til þess að setja einhvers konar reglur, nýjar reglur um fjármál ekki bara stjórnmálaflokka heldur ekki síður frambjóðenda í prófkjörum ef þetta verður að lögum svona óbreytt.

Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hverjir hafi síðan mesta möguleika á að komast áfram á óröðuðum listum flokkanna. Ég ætla að leyfa mér að hafa ákveðnar efasemdir um að sumir hópar í samfélaginu eigi sömu möguleika og aðrir. Ég held t.d. að starfandi þingmenn eigi oftast nær meiri möguleika en nýliðar. Ég ætla líka að leyfa mér að halda því fram að karlar eigi oftast nær meiri möguleika en konur og ég ætla líka að leyfa mér að halda því fram að yngra fólk eigi minni möguleika en þeir sem eldri eru. Ég ætla líka að leyfa mér að halda því fram að frægð og frami og fyrri sigrar viðkomandi einstaklinga geti haft áhrif á það hvort menn komist áfram á óröðuðum listum í persónukjöri en ella. Það kann því að leiða til þess að þessi keppni eða þetta kapphlaup um hylli kjósenda, sem óhjákvæmilega fer fram í persónukjöri, geti skaðað flokkana.

Nú er ég ekkert að halda hér uppi vörnum fyrir stjórnmálaflokkana, (Gripið fram í.) ég er bara að viðra hér ákveðin sjónarmið. Ég vísa því á bug varðandi það frammíkall sem kom hér um að ég væri að gera það, ég er þvert á móti ekki að gera það. Ég er hins vegar að draga hér fram ákveðin álitamál í þessu efni og það kemur m.a. fram hér í frumvarpinu á bls. 17, með leyfi forseta:

„Líklegt má telja að persónukjör hafi einhver áhrif á flokkseiningu og flokksaga í stjórnmálaflokkum og rannsóknir styðja þá niðurstöðu.“

Síðan er á sömu blaðsíðu komið inn á þetta sem ég nefndi áðan varðandi fjármál stjórnmálaflokka og einstaklinga og ég tel að þessu verði að halda til haga.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna lýtur að 8. gr. frumvarpsins og er rætt á bls. 22 í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar kemur það skýrt fram að þeir kjósendur sem taka ekki þátt í röðun frambjóðenda, þ.e. kjósandi sem setur x við sinn flokk en kýs hins vegar ekki að raða einstaklingunum heldur vill bara velja flokkinn, ef meiri hluti kjósenda kýs að gera það af því að einhverra hluta vegna vill meiri hluti kjósenda ekki skipta sér af röðun frambjóðenda þá er það minni hluti kjósenda flokksins sem ræður því umfram meiri hlutann hvernig röðun einstakra frambjóðenda verður. (Gripið fram í.) Ef þetta verður niðurstaðan, frú forseti, held ég að það sé afar mikilvægt að settar verði mjög skýrar leiðbeiningar til kjósenda varðandi þetta atriði þannig að kjósendur viti það að kjósi þeir að nýta sér ekki þennan rétt til röðunar eru þeir í raun og veru að afsala sér áhrifum á þeirri röð frambjóðenda sem verður niðurstaðan og í raun og veru að láta aðra ráða því fyrir sig hvernig röð frambjóðenda verður.

Ég ætla ekki, frú forseti, að hafa lengra mál um þetta að sinni. Þetta eru þau þrjú álitaefni sem ég hnaut um þegar ég las þetta frumvarp. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi, ég fagna því að frumvarpið sé komið fram. Þetta er skref í rétta átt og markmiðið er að efla lýðræðið og gefa kjósendum möguleika á því að hafa meiri áhrif en gert er í dag og við hljótum að fagna því öll þó að við höfum uppi ákveðin varnaðarorð varðandi tiltekin atriði í frumvarpinu.