Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 09:44:23 (4117)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að í samningunum er ákvæði um að ríkisábyrgðin gildi til ársins 2024. Það er almennt ákvæði í öllum þeim tillögum sem við höfum fjallað um og bara sett sem kurteisisviðmið að þar sem eitthvað bregði út af og reyni á þá fyrirvara sem við höfum sett skuli fara fram viðræður við samningsaðila og ef það leiði ekki til niðurstöðu komi þetta aftur til Alþingis. Það er Alþingi sem setur ábyrgðina, það er Alþingi sem ákveður hvað er gert ef hlutir ganga ekki eftir með þeim hætti sem áætlað er.

Það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson er væntanlega að spyrja um er hvað verður ef eitthvað stendur út af miðað við efnahagslegu forsendurnar varðandi það ef ekki er búið að greiða upp lánið að fullu. Þar er reiknað með þessari sömu málsmeðferð, að leitað sé eftir samningum um það með hvaða hætti skuli ganga frá því, hvort þar skuli vera um að ræða niðurfellingu eða endurupptöku á lánunum. Ekki er kveðið nánar á um það (Forseti hringir.) í þessum atriðum hér.