Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 09:59:52 (4131)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt að þetta atriði sé útkljáð í þingsal af því að það stendur réttilega í áliti meiri hlutans að Icesave-samningarnir byggist á þessari meginforsendu, þ.e. að íslensk stjórnvöld höfðu ítrekað sagt að við ætluðum að borga ef upp kæmi erfið staða í tryggingarsjóðnum. Þessi svör voru ekki send í tómarúmi eins og hér kemur fram í áliti meiri hlutans. Þau voru send af því að við vorum að fá spurningar. Við vorum spurð: Hvað ætlið þið Íslendingar að gera ef þessi staða kemur upp? Svörin eru: Við ætlum að borga. Þetta eru bréf frá 20. ágúst og 5. október og þau eru í þskj. 503, 227. mál, þannig að þeir sem vilja geta lesið þetta.

Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að við höldum þessari sögu ekki til haga. Í meirihlutaálitinu er gefið í skyn (Forseti hringir.) að svör stjórnvalda hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti í algeru tómarúmi. Það var ekki þannig. Ráðamenn og ráðherrar vissu (Forseti hringir.) talsvert áður en bankarnir hrundu að allt væri að fara á verri veg. Þess vegna spurðu Bretarnir og þess vegna svöruðum við.