Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 10:38:13 (4135)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég undirstrika það álit mitt að Alþingi Íslendinga hafi ekkert með samningsgerð vegna þessa máls að gera að öðru leyti en því að það frumvarp sem hér liggur fyrir krefst þess að Alþingi staðfesti ríkisábyrgð þá sem í umboði ríkisstjórnarinnar er skrifuð inn í samninga Breta og Hollendinga við Íslendinga.

Ég álít að það sé viðsemjendanna að meta hvort sú skilyrðing, takmarkanir og fyrirvarar sem Alþingi og meiri hluti fjárlaganefndar hefur sett fyrir ríkisábyrgðinni falli að þeirri grein sem hv. þingmaður vitnaði til í máli sínu. Mitt mat, miðað við hvernig orðalag þessarar samningsgreinar hljóðar, er að þeir fyrirvarar sem hér liggja fyrir í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar kalli óhjákvæmilega á að ríkisábyrgð sú sem yrði staðfest með þeim fyrirvörum sem hér um ræðir sé ekki sú sama og samninganefndirnar komu sér saman um.