Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 10:46:53 (4142)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er athyglisvert og í raun lýsi ég ánægju minni með að hv. þm. Pétur Blöndal skuli hafa látið rifja þessa hluti hér upp því þeim hefur kannski ekki verið haldið nægilega á lofti.

Það sem ég velti fyrir mér er, og kannski hv. þingmaður sem ég veiti andsvar geti svarað því: Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn í raun tekið málið út úr nefnd með þeim hætti sem hann gerir og talað svo eins og gegn málinu? Það er svolítið sérstakt að standa að því að taka þingmál út úr nefnd, vera meiri hluti og taka málið út, og síðan túlkar sá flokkur málið með allt öðrum hætti en meiri hlutinn gerir í rauninni eða stjórnarflokkarnir. Það er eins og þessir flokkar hafi ekki talað saman þegar samþykkt var að taka málið út úr nefndinni. Þetta er túlkað á annan hátt hjá Sjálfstæðisflokknum, þ.e. að þessir samningar haldi ekki og þetta þýði nýja samninga, á meðan hinn hópurinn sem stóð í að taka þetta út úr nefndinni túlkar það þannig að þetta rúmist innan samningsins. Hvar liggur þessi munur?

Ljóst er og það hefur komið hér fram að flestir stjórnmálaflokkar bera mikla ábyrgð í þessu máli og við erum þar ekki undanskilin, nema Borgarahreyfingin. Sjálfstæðisflokkurinn ber gríðarlega ábyrgð á því hvernig staðið var að málum hér í upphafi ásamt Samfylkingunni, í hvaða farveg málið fór þegar hrunið varð. Ég lýsi því yfir og vil segja hér að það eru mikil vonbrigði hvernig það þróaðist.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi hér í sinni ræðu að það þarf að rannsaka þátt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessu máli og full ástæða er til að skoða og rannsaka hvaða kúgunum hefur verið beitt, hvernig stendur á þessum misskilningi eða sitt hvorri túlkuninni hjá þeim aðilum sem tóku málið út úr nefnd. Ég lít svo á að það hafi verið mikil mistök (Forseti hringir.) að taka málið út úr nefnd með þessum hætti.