Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 10:52:42 (4146)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta í máli nr. 136 um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., svo forminu sé haldið til haga.

Áður en ég fer efnislega í minnihlutaálitið vil ég taka fram að vinna við álitið hefur staðið núna í nokkra daga langt fram á nótt og lá álitið ekki fyrir fyrr en snemma í morgun. Ég vil nota tækifærið og að þakka þeim riturum sem minni hlutinn hafði aðgang að, þeir hafa unnið framúrskarandi verk og í rauninni gengið lengra en ætlast má til af þeim.

Icesave-samningarnir eru óaðgengilegir fyrir Ísland. Má segja að þeir endurspegli fjölmörg þeirra mistaka sem stjórnvöld hafa gert bæði í aðdraganda bankahrunsins og í kjölfar þess. Eru þar fáir undanskildir. Um leið og þeir endurspegla slæma stöðu þjóðarinnar er veiting ríkisábyrgðar á samningana ein stærsta ákvörðun sem Alþingi Íslendinga hefur staðið frammi fyrir. Ákvörðunin sem slík bindur þjóðarbúið næstu tvo áratugina og mun hafa mikil áhrif á þau lífskjör sem þegnum landsins bjóðast á þeim tíma.

Að því sögðu var þeim mun mikilvægara að Alþingi gæfi sér góðan tíma til að skoða málið frá öllum hliðum þess, velta við hverjum steini og reyna með öllum tiltækum ráðum að fá aðstoð færustu sérfræðinga sem völ er á, sem aldrei mætti velkjast í vafa um að væru hlutlausir í afstöðu sinni.

Stjórnvöldum reyndist ómögulegt að uppfylla þá sjálfsögðu kröfu að almenningur í landinu fengi að sjá samningana. Það var ekki fyrr en samningarnir birtust í fjölmiðlum að stjórnvöld birtu þá fyrir sitt leyti. Það er einnig sorglegt til þess að hugsa að sterkar vísbendingar benda til þess að ekki hafi átt að sýna þingmönnum samningana. Dapurlegra er einnig að hugsa til þess að einstakir þingmenn lýstu sig reiðubúna til að samþykkja samningana án þess að hafa séð þá.

Tregðu stjórnvalda til að upplýsa málavexti var þó ekki lokið. Þrátt fyrir fullyrðingar einstakra ráðherra um að öll skjöl væru fram komin var hulunni svipt af áliti virtrar breskrar lögmannsstofu, Mishcon De Reya, sem gefið hafði álit sitt á réttarstöðu Íslands. Fleiri gögn komu upp sem ekki höfðu verið lögð fram. Þau áttu það öll sammerkt að varpa ljósi á hversu illa hafði verið staðið að samningunum við Hollendinga og Breta.

Til að bæta um betur ákvað ríkisstjórnin að sum skjöl mættu ekki koma fyrir augu almennings. Voru þau sett í svokallaða leynimöppu sem alþingismenn einir höfðu aðgang að. Efnisyfirlit þeirrar möppu er birt sem fylgiskjal með álitinu. Eftir mikla baráttu 2. minni hluta sem og annarra þingmanna í minni hluta fjárlaganefndar fékkst leyndinni aflétt af hluta þessara gagna.

Fjárlaganefnd hefur varið drjúgum tíma í yfirferð málsins. Það ber að þakka. Mikill fjöldi skjala liggur fyrir og fjöldi gesta hefur komið fyrir nefndina. Það verður þó að benda á að einstakir fulltrúar meiri hlutans hafa stigið fram og gagnrýnt hvað málsmeðferðin hefur tekið langan tíma. Var fullyrt að þingmenn ættu að leggja niður störf og samþykkja ríkisábyrgðina án fyrirvara. Sem betur fer varð það ekki niðurstaðan.

Annar minni hluti barðist allt til enda fyrir upptöku samninganna. Einnig vann 2. minni hluti ásamt öðrum nefndarmönnum að fyrirvörum við ríkisábyrgðina. Það varð svo lendingin þrátt fyrir að að okkar mati hafi ekki verið gengið nógu langt.

Sú barátta sem 2. minni hluti stóð í í þessu mikla hagsmunamáli gerði það að verkum að sú niðurstaða sem við stöndum nú frammi fyrir er langtum betri en sú niðurstaða sem í stefndi í upphafi málsins. Mun þjóðin njóta þeirrar baráttu þótt lengra hefði þurft að ganga til að halda uppi góðum lífskjörum hér á landi.

Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að afgreiða málið frá nefndinni um miðja aðfaranótt laugardagsins 15. ágúst sl. Það var gert þrátt fyrir að enn þá lægju fyrir beiðnir um að fá gesti fyrir nefndina og fleiri gögn sem varpað gætu betra ljósi á málið. Sérstaklega er gagnrýnisvert að upplýsingar um eignir þrotabús Landsbanka Íslands hf. liggja ekki enn þá fyrir hjá nefndinni. Hafa komið fram upplýsingar um að Hollendingar og Bretar hafi aðgang að þessum upplýsingum sem og hinn íslenski innstæðutryggingarsjóður. Það þarf nefndin að kanna betur. Þá sýnir það svart á hvítu að ekki reyndist áhugi hjá meiri hlutanum í reynd á að ná sameiginlegri niðurstöðu allra flokka á Alþingi þar sem ekki var vilji hjá meiri hlutanum til að gefa 2. minni hluta frekari tíma til að vinna að fyrirvörum.

Í nefndaráliti þessu er reynt að varpa ljósi á þá mörgu fleti og álitamál sem upp hafa komið varðandi Icesave-samningana. Aðdragandinn er rakinn og varpað er ljósi á þá atburði og ummæli sem leiddu til samningaviðræðna við Hollendinga og Breta. Liggur ljóst fyrir og er samstaða um það í fjárlaganefnd að yfirlýsingar ráðamanna í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins bundu þjóðina ekki til að greiða Icesave-skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. Því vakti það furðu mína að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, skyldi hafa sagt hér áðan að þó að það væri samstaða um að lagalega skyldan væri ekki fyrir hendi liti hann svo á að siðferðisleg skylda væri fyrir hendi. Það eru nýjar upplýsingar, hæstv. forseti.

Varpað er ljósi á hvort veita eigi ríkisábyrgðina eða hvort greiða eigi eingöngu þá fjárhæð sem fyrir var í innstæðutryggingarsjóðnum við bankahrunið, en virtir fræðimenn hafa bent á að engin ríkisábyrgð hafi verið til staðar samkvæmt Evróputilskipun nr. 94/19/EB, um innstæðutryggingar. Samningaferillinn er rakinn sem og skipan nefndarinnar. Þá er aðdragandinn að samþykki samninganna rakinn og gagnrýndur. Nokkuð ítarlega er farið í þau ákvæði Icesave-samninganna sem valdið hafa hvað mestum deilum. Dylst engum að þau eru eingöngu til hagsbóta fyrir Hollendinga og Breta. Einnig er ágreiningur um hvort þjóðinni sé gert að greiða meira en hún gæti hugsanlega verið skuldbundin til lagalega. Hleypur mismunurinn á hundruðum milljarða króna og um gríðarlega hagsmuni er að ræða. Í lokin er fjallað um þá fyrirvara sem meiri hlutinn hefur samþykkt að gera við ríkisábyrgðina auk þess sem farið er yfir þær breytingartillögur sem 2. minni hluti hyggst leggja fram. Ég mun á eftir fara yfir þær breytingartillögur í ræðu minni. Ég vil taka það fram að hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða en einnig er fjallað um fjölmarga aðra þætti sem varpa ljósi á málið í heild sinni. Álitið er samt nokkuð ítarlegt og á að varpa skýrri mynd á hvað gerst hefur á þeim tíu mánuðum frá því að bankahrunið átti sér stað.

Það er skýr afstaða 2. minni hluta í fjárlaganefnd og Framsóknarflokksins í heild sinni að hreinlegast og skynsamlegast hefði verið þegar fyrir lá að samningarnir yrðu ekki samþykktir í sinni upprunalegu mynd að leggja samningana til hliðar og semja upp á nýtt við Breta og Hollendinga. Um það er samstaða í þingflokki framsóknarmanna. Undir það sjónarmið tók Lee Buchheit. Taldi hann fullvíst að vel yrði tekið í þá beiðni þar sem hagsmunir Íslendinga, Hollendinga og Breta væru að mörgu leyti sambærilegir og því hefðu þessar þjóðir ríka hagsmuni af því að Íslendingum vegnaði vel. Helstu rökin sem komið hafa fram gegn þessari leið eru að stjórnvöld hafi óttast að slíkt kynni að hleypa aðildarviðræðum um ESB í uppnám. Einnig var þeim sjónarmiðum haldið á lofti að innstæðutryggingarsjóðurinn yrði, ef þessi leið yrði farin, gjaldþrota um leið og greiðsluskylda hans hæfist. Sú fullyrðing stenst ekki nánari skoðun þar sem skýrt er tekið fram í Icesave-samningunum að þeir taki ekki gildi fyrr en Alþingi hefur veitt ríkisábyrgð á samningana. Á það hefur verið bent fyrr í álitinu. Sjóðurinn getur því haldið sömu stöðu og hann hefur í dag. Hann greiðir því einungis það sem í honum er og Bretar og Hollendingar þurfa því að leita réttar síns fyrir þartilgerðum dómstól, telji þeir að sjóðnum beri skylda til að greiða meira. Það eru sjónarmið sem íslenska samninganefndin átti að hafa í huga, að það væri alltaf Breta og Hollendinga að gera kröfu um að sjóðurinn mundi borga eins og þeir töldu að hann ætti að borga. Því hefur verið snúið á hvolf í umræðunni og sagt að Íslendingar gætu ekki leitað úrlausnar um þetta ágreiningsatriði.

Á þeim forsendum sem ég lýsti hér áðan hófu framsóknarmenn viðræður við meiri hlutann með það að leiðarljósi að leiða fram hvort vilji væri fyrir hendi að ná fram sameiginlegri niðurstöðu. Á fundi fjárlaganefndar var ákveðið að fá hóp lögfræðinga undir forustu Eiríks Tómassonar lagaprófessors til að vinna tillögur úr annars vegar hinum svokölluðu „Ögmundarfyrirvörum“ sem 2. minni hluti lýsti sig fyrir sitt leyti tilbúinn að samþykkja. Átti 2. minni hluti einnig drjúgan þátt í þeim fyrirvörum. Þegar niðurstaða lögfræðingahópsins lá fyrir kom í ljós að ekki voru teknir inn í það skjal allir þeir fyrirvarar sem fram komu í tillögunum og mikið hafði verið dregið úr vægi þeirra fyrirvara sem þó voru inni. Framsóknarflokkurinn eða 2. minni hluti lýsti sig hins vegar reiðubúinn til að samþykkja þá efnahagslegu fyrirvara sem unnir höfðu verið af hópi þingmanna úr öllum flokkum og að þeir gengju nægilega langt. Tekið skal fram að í áliti meiri hlutans hefur enn á ný verið dregið úr vægi þeirra efnahagslegu fyrirvara sem þingmannahópurinn lagði fram.

Snemma varð ljóst að samkomulag hefði náðst milli allra flokka fyrir utan Framsóknarflokk að sætta sig við niðurstöðu úr vinnu lögfræðingahópsins.

Annar minni hluti tekur undir margt af því sem kemur fram í meirihlutaáliti um fyrirvarana. 2. minni hluti telur samt að hinir lagalegu fyrirvarar sem þar komu fram hefðu þurft að vera sterkari og skýrari til þess að þeir nái markmiði sínu. Vill 2. minni hluti benda á að orðalag um hina lagalegu fyrirvara þar sem sagt er að komi einhver lagaleg niðurstaða fram sem sýni að ekki sé ríkisábyrgð að baki innstæðukerfum Evrópu finnst 2. minni hluta orðavalið þar svo almenns eðlis að nánast engar líkur séu á bankahruni í öðru landi og að slík niðurstaða fengist þar sem látið yrði reyna á hvort ríkisábyrgð sé á bak við innstæðutryggingakerfið.

Í annan stað telur 2. minni hluti það ekki ganga nógu langt að verði þessi ólíklegi atburður að veruleika hefði eingöngu verið gengið til viðræðna á ný við Breta og Hollendinga og hefðu þeir ekki samþykkt samningaviðræður eða slitnað upp úr þeim ætti málið að fara að nýju til Alþingis. Má þá segja að við lentum aftur í þeirri stöðu sem við erum í nú en þá væri best að leysa málið nú þegar hér á Alþingi.

Annar minni hluti hefur lagt fram breytingartillögu til þess að styrkja þetta ákvæði sem kennt hefur verið við þá Stefán Má Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann.

Orðast breytingartillagan þannig:

„Fáist síðar úr því skorið fyrir þar til bærum úrlausnaraðila að ríkisábyrgð gildi ekki, þá ber Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ekki að greiða hærri fjárhæð en til var í sjóðnum við upphaf bankahrunsins. Sami fyrirvari á við ef betri réttur skapast á sviði Evrópulöggjafar, hún skýrist eða ef lagaleg skylda til að ábyrgjast innstæður minnkar eða á annan hátt liggur fyrir að ríkisábyrgð sé ekki til staðar, einnig ef í ljós kemur að skaði hafi hlotist af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda fyrir þrotabú Landsbanka Íslands hf.“

Eins og ég sagði áðan er tillaga meiri hlutans styrkt hér að því leyti að mun líklegra er að Ísland geti notið þess ef þessu er breytt í átt að hagsmunum Íslands. Þá bætist einnig við að ef í ljós kemur að t.d. hryðjuverkalögin hafa rýrt þær eignir sem finnast í Landsbankanum og ef einhver innstæðueigandi í hvaða landi sem er lætur á það reyna muni Íslendingar einnig fá að njóta þess. Það er fullkomlega sanngjarnt og eðlilegt.

Annar minni hluti vill taka fram að það að niðurstaðan sé endanleg en ekki þurfi aftur að fara og ræða við Breta og Hollendinga og svo aftur til Alþingis á einnig við um aðra fyrirvara varðandi ríkisábyrgðina. Þeir eru allir sama marki brenndir. Ef eitthvað gerist sem þjónar hagsmunum Íslendinga verður það ekki niðurstaðan heldur skal aftur taka upp viðræður og ljúka málinu á Alþingi. Á það sérstaklega við um fyrirvarann varðandi það þar sem innstæðutryggingarsjóðnum er gert skylt að höfða mál um útgreiðslu úr þrotabúi Landsbankans. Það ákvæði er styrkt til mikilla muna í breytingartillögum 2. minni hluta. Þar kemur fram að ábyrgðin er bundin við að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir slita- eða skiptastjórn þrotabús Landsbanka Íslands hf. hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu og hagi kröfulýsingu sinni þannig að reynt geti á þennan rétt með málskotsrétti til héraðsdóms og Hæstaréttar.

Þá kemur fram í c-lið að ef þessi niðurstaða verður Íslendingum í hag gildir hún, ekki verður þá rætt aftur við Hollendinga og Breta. Þessi fyrirvari var unninn í samráði við færustu menn hérlendis og leikur enginn vafi á að innstæðutryggingarsjóðurinn á að leita allra leiða til þess að ágreiningur um þetta atriði verði leystur fyrir dómstólum. Hann verður að stíga skref í meðferð þrotabúsins og fjallar þessi fyrirvari um að þau skref verði sannanlega stigin.

Varðandi hina efnahagslegu fyrirvara sem settir voru inn til að koma í veg fyrir gjaldþrot þjóðarbúsins og tryggja viss lágmarkslífskjör í landinu, lýsir 2. minni hluti sig sammála því að þessi leið sé farin. Engu að síður gagnrýnir 2. minni hluti að greiðslubyrði skuli hafa verið hækkuð upp í 4% úr 3,85% gagnvart Bretum en úr 1,94% í 2% gagnvart Hollendingum. Þessi prósentuhækkun samsvarar um þriggja milljarða hækkun á greiðslubyrði ríkisins á einu ári. Þess ber að geta að breytingartillögur 2. minni hlutans miðast algerlega við útreikninga Seðlabankans eins og álit þingmannahópsins gerir ráð fyrir að lagt sé til grundvallar. Til þess að varpa ljósi á um hversu háa fjárhæð er að ræða má til samanburðar geta þess að fyrr í sumar skáru núverandi stjórnvöld, meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, niður framlög til aldraðra og öryrkja um svipaða upphæð. Það munar um þessa þrjá milljarða, það geta aldraðir og öryrkjar staðfest. Það fær mann til að velta því fyrir sér hvers vegna þeir sem gæta eiga hagsmuna þjóðarinnar berjist fyrir því að greiðslubyrðin sé hækkuð sem þessu nemur. Hverra hagsmuna er hér verið að gæta? Ekki íslensku þjóðarinnar, það er víst. Í annan stað átelur 2. minni hluti að þrjú skilyrði um fjárhagslega byrði séu ekki í breytingartillögum meiri hlutans heldur eingöngu í nefndaráliti meiri hlutans og eru því haldlítil og tryggja ekki réttarstöðu landsins að þessu leyti. Þess má geta að í áliti meiri hlutans eru þessi skilyrði enn á ný færð niður þannig að enn ólíklegra er að á þau reyni.

Því leggur 2. minni hluti fram þá breytingartillögu að þetta verði skýrt í lagafrumvarpinu. Þá orðast breytingartillagan þannig:

„Ríkisábyrgðin grundvallast á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka. Til að fyrirbyggja greiðslufall ríkissjóðs fellur ríkisábyrgðin niður ef:

a. hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fer yfir 240%,

b. hlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum fer yfir 250%,

c. hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum fer yfir 150%.“

Það skiptir gríðarlega miklu máli að þessu sé haldið til haga. Ég vil benda á þá staðreynd að til þess að þetta verði raunverulega virt verður það að standa skýrum orðum í frumvarpinu sjálfu, það nægir ekki að það sé eingöngu í nefndarálitinu. Ég vil taka fram að skýr ákvæði lagatexta ganga alltaf framar óskýrum ákvæðum í nefndaráliti, jafnvel þó að nota eigi þau sem lögskýringargögn.

Annar minni hluti leggur fram breytingartillögu þess efnis að upphafsdagur vaxta miðist við 27. júlí 2009 í stað 1. janúar sama ár. Miðast dagsetningin við upphaf greiðsluskyldu samkvæmt samningunum. Er hér um að ræða hagsmuni fyrir íslenskt þjóðarbú að fjárhæð um 24 milljarðar kr. Er á engan hátt hægt að réttlæta að Íslendingum sé gert að greiða þessa fjármuni án neinnar skyldu. Það er eitt að við séum neydd til þess að samþykkja útgreiðslu upp á 20.887 evrur en að Bretar og Hollendingar ætli sér að græða á þeirri erfiðu stöðu sem Íslendingar eru í kemur ekki til greina að mínu mati. Þetta snýst um stolt okkar Íslendinga hvort við ætlum að láta beygja okkur í duftið eða hvort við ætlum að koma fram sem upprétt þjóð.

Ég vil líka taka fram að í samtali sem Lee Buchheit átti við fjárlaganefndina benti hann á að vextir upp á 5,5% væru lélegir vextir. Bretar eiga aðgang að lánum með 3,38% vöxtum. Þannig munu þeir fjármagna lánið sitt til Íslendinga, þeir munu stórgræða á láninu. Er það eðlilegt að Íslendingar, sem ætla einir að taka á sig galla í evrópska innstæðutryggingarkerfinu, borgi um leið gríðarlega háar fjárhæðir til Breta og Hollendinga, langt umfram þær 20.887 evrur sem getið er um í tilskipuninni en ríkir þó ágreiningur um? Getur verið að meiri hluti Alþingis ætli að láta þetta viðgangast? Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni sem fer fram einhvern tíma á næstu dögum.

Annar minni hluti telur að styrkja eigi eftirlitshlutverk Alþingis betur en gert er í frumvarpinu. Í því er kveðið á um að fjármálaráðherra skuli árlega upplýsa Alþingi um framkvæmd samninganna og mat skv. 1. mgr. Telur 2. minni hluti að í ljósi efnahagsástandsins sé nauðsynlegt að efla eftirlitshlutverk Alþingis, bæði með þessum samningum sem og framkvæmd fjárlaga. Telur því 2. minni hluti að gera ætti ársfjórðungslega grein fyrir framkvæmdinni í skýrslum um framkvæmd fjárlaga sem staðfestar séu af endurskoðendum. Auk þess telur 2. minni hluti mikilvægt að ríkisreikningur verði gefinn út eigi síðar en í upphafi febrúar ár hvert en ekki um eða eftir mitt ár eins og raunin hefur verið síðustu tvö árin. Hann leggur til að lögum um fjárreiður ríkisins verði breytt í þá veru því að síðbúið uppgjör bendir til veikleika í eftirliti með fjárreiðum ríkisins og er slíkt óviðunandi þegar kreppir að í efnahagsmálum. Það skiptir miklu máli vegna þess að við erum að leggja til að eftirlit verði með framkvæmd út af Icesave-samningunum. Við höfum sett skilyrði þannig að ef skuldahlutfallið verður ósanngjarnt gagnvart okkur greiðum við minna. Eftirlitið skiptir öllu máli fyrir það hvernig lífskjör verða á landinu næstu 20 árin.

Annar minni hluti er sammála breytingartillögum meiri hlutans um endurheimtur á því fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Um það atriði tel ég að sé rík samstaða innan nefndarinnar og ég tel líka að þetta atriði eitt og sér gæti leitt til þess að öldur lægðust erlendis gagnvart Íslendingum. Icesave er ekki lengur til umræðu í Hollandi og Bretlandi eins og kom skýrt fram hjá sendiherra Íslands í Bretlandi. Það er hins vegar reiði gagnvart þeim sem stóðu að opnun þessara bankareikninga, ekki bara Landsbankanum heldur öðrum bönkum, Glitni, Singer & Friedlander og Heritable Bank. Ef við samþykkjum að ná í þessa fjármuni tel ég að það muni hafa mikil áhrif á það að álit á Íslendingum muni batna.

Það sem ég gagnrýni hins vegar er að það er óljóst til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin getur gripið án þess að ganga á stjórnarskrárvarin réttindi viðkomandi aðila og þarna sé því miður gengið of skammt eins og í öðrum fyrirvörum í breytingartillögum meiri hlutans. Þetta atriði hefur því miður verið lítið sem ekkert rætt innan fjárlaganefndar og enginn utanaðkomandi sérfræðingur hefur tjáð sig um álitaefnið, hvað þá lagt fram greinargerð um málið. Eins og ég sagði er mikilvægt að hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert Icesave-innstæðurnar fóru.

Með þessu ákvæði og að það sé hér í tillögum meiri hlutans verður að líta svo á að hér sé komin staðfesting á algeru sinnuleysi núverandi ríkisstjórnar gagnvart því að reyna að nálgast þá fjármuni sem lagðir voru inn á Icesave-reikningana. Ef reynt hefði verið að ná í þessa fjármuni væri ekki þörf á svona ákvæði. Er það einnig til marks um þá döpru staðreynd að ekkert hefur verið gert á erlendum vettvangi af hálfu stjórnvalda til að rétta við stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi. Ég vil taka það fram að í aðdraganda bankahrunsins lögðu stjórnvöld á sig ótal ferðir til útlanda til þess að útskýra fyrir öðrum þjóðum hvað bankakerfi Íslendinga væri frábært. Svo þegar það hrynur og þjóðinni er gert að greiða fyrir þau mistök sem þar voru gerð er ekkert gert til þess að leiðrétta þann misskilning sem víða gætir erlendis. Ég er sannfærður um að ef stjórnvöld hefðu sinnt þessu máli hefði aðstaða okkar í samningunum verið allt önnur en raun ber vitni og við sætum ekki uppi með þá slæmu samninga sem við erum hér að glíma við.

Vandamálin sem Íslendingar eru að takast á við eru geysilega alvarleg og má raunar segja að það séu fá dæmi í hagsögu 20. aldar sem jafna má við þann vanda sem Ísland á við að etja núna. Saman hefur farið hrun fjármálakerfisins, fall gjaldmiðilsins, lækkun eignaverðs og slæm fjárhagsstaða fyrirtækja og einstaklinga. Afleiðingin er atvinnuleysi, harkalegur samdráttur framleiðslu og skert lífskjör.

Þær fjárhagslegu skuldbindingar, ábyrgðir og greiðslur sem ríkið tekur á sig munu hafa úrslitaáhrif á framleiðslugetu og lífskjör í landinu. Þess vegna skiptir takmörkun ríkisábyrgðar áhættu og óvissu vegna Icesave-samninganna svo miklu máli. Þess vegna verða alþingismenn einnig að hafa í huga að enn þá ríkir mikil óvissa um þá efnahagsfyrirvara sem meiri hlutinn ætlar að setja. Sjálfstæðismenn sem tóku þátt í afgreiðslu málsins úr nefndinni leggja annan skilning í þetta en meiri hlutinn. Það getur skipt höfuðmáli og menn eiga ekki að fara þannig með fjöregg þjóðarinnar að það sé algjör óvissa um hvernig Hollendingar og Bretar muni bregðast við fyrirvörunum. Þess vegna legg ég til að málið verði enn á ný tekið til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og að fjárlaganefndin fari mjög ítarlega yfir hvort það sé sameiginlegur skilningur þeirra sem stóðu að þessum fyrirvörum hvaða áhrif þeir eigi að hafa.

Í efnahagslegum fyrirvörum meiri hluta fjárlaganefndar er fyrst og fremst horft til endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengingar hámarksgreiðslna við hagvöxt. Það er skoðun 2. minni hluta að efnahagslegir fyrirvarar meiri hluta fjárlaganefndar séu til bóta, því skal haldið til haga, en þeir ganga einfaldlega ekki nógu langt. Sérstaklega telur 2. minni hluti slæmt að viðmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skuldaþol íslenska þjóðarbúsins er ekki að finna í fyrirvörum meiri hlutans. Breytingartillagan gengur út á að það komi inn. Jafnframt átelur 2. minni hluti að ekki er fyllilega tekið á því hvað gera skuli við eftirstöðvar á árinu 2024, ef þær verða einhverjar. Í staðinn er mjög almennt orðað að ræða skuli við viðsemjendur og senda svo málið til Alþingis ef ekki fæst niðurstaða.

Þrátt fyrir að nú sé lagt til að fyrirvarar verði settir við ríkisábyrgðina af hálfu Alþingis verður ekki séð að það breyti því áliti sem sett er fram í lokaorðum 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar um að vafi leiki á því að fyrirvararnir séu nægjanlegir og að betra sé að ganga hreint til verks og ganga á ný til viðræðna um lausn á Icesave-skuldbindingunni.

Í sérstöku skjali frá 2. minni hluta fjárlaganefndar er lögð til frávísunartillaga, þ.e. að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að taka upp viðræður á nýjan leik við bresk og hollensk stjórnvöld á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Leitað verði eftir pólitískum farvegi til lausnar deilumálinu eða samningsniðurstöðu á sanngjarnari forsendum. Verði frávísunartillagan ekki samþykkt mun koma til atkvæða varatillaga 2. minni hluta sem felur í sér að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á fyrirvörum Íslands til að taka á stærstu ágöllum Icesave-samninganna. Framsóknarmenn eru reiðubúnir að þoka málinu lengra þannig að fyrirvararnir verði í það minnsta skýrir og að þeir virki eins og þeir eiga að virka.

Það skal þó tekið fram í lokin að frávísunartillagan er ekki hér í lok minnihlutaálitsins heldur á sérstöku skjali af þeirri ástæðu einni að þar kemur hún skýrar fram og er enn þá verið að vinna við frágang nefndarálits 2. minni hluta. Það er þó gaman að geta þess að síðast þegar frávísunartillaga var lögð fram á einu skjali var það gert af fyrrverandi þingmanni, Svavari Gestssyni, árið 1997.

Að lokum, virðulegi forseti, árétta ég það sem fram kom áðan, að málið verði enn á ný fært til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. Ég vona að þeir fulltrúar Norðurlandaþjóðanna sem ég sé hér stadda á pöllum, geri sér grein fyrir því hversu slæm staða íslenska þjóðarbúsins er og að þeir hjálpi Íslendingum til þess að sjá fram úr þeim erfiðleikum sem þeir glíma við um þessar mundir. Vináttan hefur alltaf verið til staðar og hún verður að vera það þegar fram í sækir.