Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:22:25 (4156)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna er það sem ég var að spyrja um. Þó að í fyrirvörunum standi að fyrirvararnir séu óskilyrtir og standi fast með samningnum er það samt upptakturinn að því að setja fyrirvara við samninginn.

Ég sé því þá ekkert til fyrirstöðu, ef hv. þingmaður túlkar þetta með þessum hætti, að Bretar og Hollendingar komi og undirriti þennan sameiginlega skilning sem hv. þingmaður túlkar svo. Að þeir komi hingað áður en ríkisábyrgðin er samþykkt og undirriti þessa samninga því eins og stendur hér verður að vera skriflegt samkomulag milli aðila að samningarnir standi, sé við þá bætt, sem vissulega er gert með þessum fyrirvörum eins og skilningur ríkisstjórnarinnar er.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á að málið ætti eftir að taka breytingum í meðförum þingsins. Er það réttur skilningur minn að Bretar og Hollendingar komi hingað (Forseti hringir.) og undirriti fyrirvarana á milli 2. og 3. umr. um þetta mál?