Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:24:53 (4158)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Ég kom áðan inn á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tenginguna sem hann hefur gert við þetta mál allt og rakti að í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar er þessi málsmeðferð harðlega gagnrýnd. Ég stend við það. Ég hlýt að gagnrýna að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé beitt með þessum hætti og ég tel að það komi fyllilega til greina að við skoðum á vettvangi Alþingis hvort það eigi að gera einhverjar formlegar athugasemdir við það. Ég tek þá ábendingu til greina og mun skoða hana.

Ég tel að Alþingi geti samþykkt ríkisábyrgðina með þeim fyrirvörum eða skilmálum sem koma fram í breytingartillögunum. Ég tel að þær breytingartillögur haldi (Forseti hringir.) en ég dreg ekki dul á að ég tel nauðsynlegt og eðlilegt að í framhaldinu muni íslensk stjórnvöld ræða við gagnaðila okkar í málinu og gera (Forseti hringir.) þeim grein fyrir afgreiðslu Alþingis.