Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:26:11 (4159)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég held að við séum sammála um að það er nauðsynlegt að Alþingi láti aðeins heyra í sér um hvernig alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og jafnvel aðrar hafa staðið lítið við bakið á okkur í þessu stóra máli.

Ég er líka sammála honum um að það er mikilvægt að við leiðum þetta mál til lykta og að um það sé nokkuð góð sátt. Hins vegar vil ég líka koma þeirri spurningu á framfæri hvort þingmaðurinn sé sammála því að málið fari til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og að þar verði farið yfir málið út frá þeirri umræðu sem hér fer fram og þeim yfirlýsta vilja allra hér að sátt náist? Varðandi afstöðu Framsóknarflokksins er ljóst að það þarf að ganga lengra með þá fyrirvara sem þarna eru.