Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:35:12 (4167)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum ekki enn hver staðan er á eignum í þrotabúi Landsbankans. Lee Buchheit benti á að meðan sú óvissa væri til staðar væri í rauninni ekki hægt að skrifa undir samningana.

Það sem mig langar hins vegar að varpa ljósi á er að nú í vikunni var lögð gríðarleg pressa á starfsfólk og þingmenn að klára nefndarálit. Hér var unnið dag og nótt og það hefur nánast ekki náðst að klára álitin fyrir daginn í dag. Telur þingmaðurinn að þetta sé til eftirbreytni? Ef svo er óttast ég að við horfum upp á mjög erfiðan vetur þar sem meiri hlutinn mun beita valdi sínu, mun beita fyrir sig forseta Alþingis til þess að (Forseti hringir.) koma erfiðum málum í gegn. Mér þykir miður að meiri hlutinn skuli ekki (Forseti hringir.) sjá þessa hluti.