Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:36:32 (4168)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað hefur mikið verið unnið hér dag og nótt og um helgar og það hefur m.a. átt við um mig. Ég hef ekki kveinkað mér undan því. Ég er vanur því að vinna mikið í mínum störfum, bæði í stjórnmálum og á öðrum vettvangi.

Ég tek þó undir með þingmanninum að margt í vinnubrögðum Alþingis mætti færa til betri vegar. Ég veit ekki betur en sérstakur starfshópur á vegum forseta Alþingis fjalli nú um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. [Hlátur í þingsal.] Einhver hafði á orði að maður væri eiginlega fjölskylduvanfær þegar maður væri hér að störfum vegna þess að maður sæist ekki mikið heima hjá sér. Menn eru jafnvel spurðir hvort þeir rati orðið heim til sín.

Ég tek því undir með hv. þingmanni um að ég tel að það þurfi að bæta margt í vinnubrögðum Alþingis að þessu leyti til. Það skal þó fúslega viðurkennt að þetta mál er mjög sérstakt, það hefur verið hér lengi til umfjöllunar og kallað á mjög mikla vinnu á nánast öllum tímum (Forseti hringir.) sólarhringsins. Það er ekkert endilega til eftirbreytni. Ég er samt þeirrar skoðunar að afraksturinn af því, eins og það liggur fyrir þinginu í dag, (Forseti hringir.) sé góður þrátt fyrir þessa miklu vinnu og kannski einmitt vegna hennar.