Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 12:38:00 (4169)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:38]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Við ræðum nú Icesave, þetta merka og ógeðfellda mál. Það er ekki úr vegi að byrja á því að tala aðeins um fortíðina. Einhver sagði að til að vita hvert maður er að fara þurfi maður að vita hvaðan maður kemur, annars ráfi maður bara stefnulaus út í óvissuna. Ég held að ef við höldum fortíðinni ekki til haga í þessu máli muni Ísland ráfa stefnulaust áfram út í óvissuna.

Rætur þessa máls liggja í einkavinavæðingu bankanna, fyrirtækja og atvinnulífs undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, undir stjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þær spilltu ríkisstjórnir settu þetta ferli af stað og þess vegna erum við hér í dag. Ísland hefur ekki haft burði til að reka sitt þjóðfélag á siðrænum, eðlilegum nótum eins og gerist í nágrannalöndunum og því fór sem fór. Ríkisbönkum var komið til vina og flokksfélaga í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins var m.a. í bankaráði Landsbankans og öll sú saga sem hefur spunnist og verið sögð í kringum þá einkavinavæðingu er þekkt. Við megum ekki gleyma henni því eins og fram kom ekki fyrir löngu síðan í tillögum um endurfjármögnun bankanna virðast menn ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut. Við skulum ekki gleyma því hvar rætur þessa máls liggja.

Á tímanum var bankaeftirlit Seðlabankans lagt niður og Fjármálaeftirlitið búið til. Fjármálaeftirlitið var stofnað í kringum ESB-rammalöggjöf um fjármálafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrsta stjórn Fjármálaeftirlitsins var pólitískt skipuð þremur mönnum hvers skilyrði fyrir setu í stjórn eftirlitsins var að þeir væru samþykkir ráðningu sonar Páls Péturssonar, fyrrverandi ráðherra, í stöðu forstjóra eftirlitsins. Sá maður hafði ekki reynslu af fjármálaeftirliti og mjög takmarkaða reynslu af fjármálastarfsemi. Því fór sem fór. Hann lét af störfum og nýr forstjóri var skipaður, pólitískur flokksdindill Sjálfstæðisflokksins og því fór sem fór. Þessu þurfum við að halda til haga, frú forseti, því þetta eru miklir meinbugir á íslenskri stjórnsýslu og íslenskum stjórnmálum.

Rammi fjármálalöggjafarinnar sem ESB-samningurinn kvað á um var tekinn upp á Íslandi. Lögin voru send til umsagnar hjá fjármálafyrirtækjum með tillögum um hvort þau teldu að einhverju þyrfti að bæta við þau. Þau sögðu að sjálfsögðu nei, þetta væri einföld rammalöggjöf. Allar nágrannaþjóðir Íslands prjónuðu inn í þessa rammalöggjöf alls konar ákvæði um eftirlit og skyldur á fjármálastarfsemi, nema Ísland. Því fór sem fór í þessu máli líka.

Íslenskur fjármálamarkaður í upphafi 10. áratugarins og fram til október í fyrra var skrípamynd af fjármálamarkaði eins og þeir gerast annars staðar, alger skrípamynd. Sjálfur starfaði ég um tíma í New York á verðbréfamarkaði og í ýmsum stofnunum og fyrirtækjum en fluttist til landsins árið 1997 og varð agndofa yfir því sem ég sá að viðgekkst á fjármálamarkaðnum. Þetta var skrípamynd allan þann tíma sem íslenskur fjármálamarkaður starfaði með þeim hætti sem hann gerði. Þessu verðum við að halda til haga. Fjármálaeftirlitið sjálft var fjármagnað af fjármálafyrirtækjum sem þar með höfðu bein áhrif á hversu margir starfsmenn væru þar. Þeir réðu kjörum starfsmanna sem komu þarna inn beint úr háskóla, störfuðu í eitt ár og var svo kippt inn í bankana. Fjármálaeftirlitið samanstóð því að stórum hluta af óreyndu starfsfólki sem hafði hvorki reynslu, þekkingu né faglegan kjark til að spyrna við fótum. Fjármögnun viðskiptalífsins fluttist úr spilltum pólitískum bankaráðum yfir í spillt einkavædd bankaráð með sterk pólitísk tengsl. Krosseignatengsl banka með fyrirtækjum voru um allt í viðskiptalífinu. Það var mjög óljóst hver átti hvað og hverjir réðu en samt virðist alla tíð hafa verið ljóst hverjir áttu hverja því það Alþingi sem sat á þeim tíma gerði ekki neitt til að spyrna við fótum. Yfirgengilegur hroki Íslendinga, bankamanna og ráðherra, sem höfnuðu allri erlendri gagnrýni er skaut upp kollinum. Skýrslur voru keyptar um glæsilega stöðu Íslands en gagnrýni var hins vegar stungið undir stól. Þessu verðum við að halda til haga líka því að vegna þessa erum við hér í dag.

Bankarnir vissu árið 2007 hvað mundi gerast árið 2008. Stórfelld sala starfsmanna banka á hlutabréfum sínum í bönkunum er til vitnis um það. Íslensk stjórnvöld vissu í upphafi árs 2008 hvað mundi gerast. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vissi í upphafi árs að kerfið mundi hrynja með haustinu. Hvað gerði sú ríkisstjórn? Hún fór askvaðandi um öll nágrannalöndin, íslenskir ráðherrar og embættismenn lugu upp í opið geðið á nágrannaþjóðunum og eigin landsmönnum að hér væri allt í himnalagi, þetta væri bara misskilningur og séríslenskar aðstæður og þetta mundi allt reddast. Þessu verðum við líka að halda til haga því það er vegna þessa sem Ísland er rúið trausti um allan heim. Ísland er ekki rúið trausti vegna þess að það mun ekki samþykkja Icesave. Ísland er rúið trausti vegna þess að í áratugi hefur íslenskt stjórnkerfi, íslensk stjórnsýsla og íslenskt Alþingi brugðist skyldum sínum, þeim skyldum sem að öllu jöfnu liggja á eðlilegum þjóðþingum, stjórnvöldum og stjórnsýslum nágrannalandanna. Þess vegna nýtur Ísland einskis trausts og það er ekkert gert til að bæta úr því í dag. Icesave er merki um hlýðni við útlönd, ekki merki um að menn séu að ávinna sér traust. Við skulum halda því til haga líka.

Kerfið hrundi eins og spilaborg. Seðlabanki Íslands, með sinni pólitísku stjórn nota bene, tapaði hundruðum milljarða á nánast einu bretti. Hvað hefur verið gert þar? Jú, bankastjóranum margfræga var vikið úr starfi með miklum harmkvælum og tveir aðstoðarbankastjórar fylgdu með. Stjórnsýsla landsins fraus og henti m.a. 200 milljörðum kr. af skattfé almennings inn í peningamarkaðssjóði að kröfu fjármagnseigenda. Þvílíkt siðleysi að þetta skuli hafa verið liðið. Þetta gerði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Bankamálaráðherrann sem var yfir öllu bankakerfinu sagðist ekkert vita, kom alveg af fjöllum, en sagði svo af sér í kjölfarið. Hvað gerðist svo? Til að efla endanlega traustið á íslensku þingi var hann gerður að formanni þingflokks Samfylkingarinnar. Þetta halda menn að muni efla traust á íslenskum stjórnmálum erlendis. Þetta er hneisa og ég velti því fyrir mér hvað þingmenn Samfylkingarinnar voru að hugsa í haust þegar þeir kusu hann sem formann þingflokksins.

Frú forseti. Trúverðugleiki nýrrar ríkisstjórnar er bundinn því að ráðherrar úr fyrri ríkisstjórn fengu stöðuhækkun. Nú er það svo að hæstv. forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, er flekklaus í sínum störfum en það er ekki víst að nágrannaþjóðirnar sjái það þannig. Það sem þær sjá er að ráðherrar úr fyrri ríkisstjórn eru hækkaðir upp í stöðum og jafnvel gerðir að forsætisráðherra. Forsætisráðherra sem hafnar því að fara út fyrir landsteinana og útskýra málstað Íslendinga. Þetta eflir heldur ekki traust á íslensku stjórnkerfi.

Þessir Icesave-samningar voru gerðir í snatri og þeir leiddu til verstu samninga Íslandssögunnar. Eins og kom fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar áðan neitaði hæstv. fjármálaráðherra tveimur dögum fyrir undirskrift samninganna að það stæði til að ganga frá þeim. Engu að síður var það gert og orð var látið berast út um að það ætti að keyra samningana í gegnum Alþingi Íslendinga án þess að þingmenn fengju að sjá þá. Einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar sagði opinberlega að það væri sennilega nóg fyrir þingmenn að sjá útdrátt úr samningunum til að geta samþykkt þá. Að lokum hafðist að opinbera samningana eftir að þeim var lekið í fjölmiðla. Þá hundskuðust stjórnvöld til að birta þá almenningi og náttúrlega kom í ljós hvers vegna þeir hefðu átt að vera leyndir í upphafi, því eins og ég sagði áðan voru þetta verstu samningar sem Íslendingar hafa gert.

Aðdragandi þessarar samningagerðar er líka hneisa. Í fyrrahaust var m.a. haft samband við Lee Buchheit sem er einhver mesti samningamaður hvað varðar skuldir skuldugra þjóða sem fyrirfinnst í heiminum. Ríkisstjórn Íslands sem þá var þótti hann of dýr og því var hætt við að ráða hann. Á endanum var ráðinn íslenskur embættismaður sem var á launum hvort eð er, hafði ekki reynslu af slíkum samningum en kostaði lítið aukalega. Hann var þar að auki einkavinur fjármálaráðherra en það er regla sem hefur verið viðhöfð allt of lengi á Íslandi.

Samningarnir eru vondir. Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem hefur mælt þeim bót. Það eina góða við þá er kannski að það er sjö ára greiðslufrestur og má virða það. Þess vegna m.a. lögðust svo margir þingmenn á eitt við að reyna að koma fyrirvörum inn í ríkisábyrgðina til að vernda þjóðina og almenning á Íslandi gegn þessum ofursamningum.

Það hefur verið athyglisvert fyrir mig að fylgjast með og taka þátt í þessu starfi. Ég er sjálfur í efnahags- og skattanefnd og í fjárlaganefnd. Það hefur verið athyglisvert að sjá hvernig nefndirnar hafa unnið með misjöfnum hætti, hvernig efnahags- og skattanefnd brást hlutverki sínu í þessu starfi og hafnaði því að sérfræðingar á vegum nefndarinnar skoðuðu málið betur (PHB: Ekki öll.) heldur krafðist meiri hluti nefndarinnar, að vísu í fjarveru tveggja fastra nefndarmanna, þess að málið yrði tekið út úr nefndinni án þess að það væri klárað. Sú vinna sem fór fram í undirhópi þingmanna í kjölfarið hefði átt að vera unnin af efnahags- og skattanefnd en vegna flokkspólitísks aga og flokkspólitískra hjólfara fékk hún ekki að klára málið faglega.

Fjárlaganefnd undir forustu Guðbjarts Hannessonar hefur unnið þrekvirki í þessu máli. Þó að oft hafi margt gengið á í samskiptum nefndarmanna á fundum hennar efast ég um að nokkurn tímann hafi svo viðamikið mál komið fyrir eina nefnd þingsins. Það er eftirbreytnivert og hv. þm. Guðbjartur Hannesson á mikið hrós skilið sem og varaformaður nefndarinnar Árni Þór Sigurðsson fyrir hvað þeir hafa haldið vel utan um málið. Ég er hvorki sammála öllu því sem þeir gerðu né öllu sem kom út úr nefndinni en þetta var gríðarlega viðamikið mál, mikil vinna liggur þar að baki og þeir stóðu sig vel.

Við skulum halda því til haga að breytingartillögur við ríkisábyrgðina voru eingöngu samþykktar vegna þess að það myndaðist nýr meiri hluti á Alþingi Íslendinga. Ríkisstjórnin sem var við völd hafði ekki lengur meiri hluta og ekki heldur meiri hluta í fjárlaganefnd. Annars hefðu þessir samningar verið keyrðir í gegn óbreyttir og verið til ævarandi skammar fyrir Íslendinga og ævarandi kjararýrnunar fyrir íslenskan almenning. Þessi nýi meiri hluti spyrnti við fótum og þverpólitískur hópur þingmanna úr öllum flokkum lagði á sig mikla vinnu við að reyna að koma á framfæri breytingartillögum við þetta frumvarp.

Aðkoma okkar úr Borgarahreyfingunni var mun auðveldari en margra vegna þess að við vorum utan ríkisstjórnar, utan stjórnarmeirihluta. Þetta mál bitnaði sérstaklega á þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lögðu sig fram í þessu máli og sættu aðkasti og ámæli eigin flokksmanna fyrir að reyna að vinna málið vel. Fjögur þeirra, hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson tóku mikla áhættu og sýndu gríðarlegan kjark í að berjast fyrir því að þverpólitísk samstaða næðist á þingi um þetta mál. Hafi þau þökk fyrir. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir úr Samfylkingunni kom að málinu, svo og hv. þm. Eygló Harðardóttir úr Framsóknarflokknum, hv. þm. Pétur Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson úr Sjálfstæðisflokknum sem og Höskuldur Þór Þórhallsson úr Framsóknarflokknum.

Þetta fólk skildi mikilvægi þess að setja breytingartillögur inn í frumvarp fjármálaráðherra sem var með þvílíkum ólíkindum að annar eins óskapnaður hefur sennilega sjaldan litið dagsins ljós á Alþingi. Með miklu harðfylgi náði þessi hópur inn breytingartillögum sem skipta mjög miklu máli, breytingartillögum sem nefndarmönnum var ljóst að nauðsynlegt yrði að gera vegna þess m.a. að íslensk stjórnsýsla og stjórnkerfi brást líka í aðdraganda þessa máls. Á fundum fjárlaganefndar kom Seðlabanki Íslands með tölur um hagvöxt og útflutningstekjur sem voru út úr öllu korti. Seðlabankinn var hvað eftir annað sendur til baka og beðinn að koma með nýjar og betri tölur og þeir komu með nýjar og öðruvísi tölur. Enn þá hefur ekki verið hægt að fá út úr Seðlabanka Íslands nákvæmlega hver skuldastaða þjóðarbúsins er. Það kemur ný tala í hvert einasta skipti sem spurt er. Sem betur fer er verið að skipta einu sinni enn um seðlabankastjóra og þá verður kannski unnið á faglegri nótum á þeirri stofnun en hefur verið gert í þessu máli. Þess má þó geta að einstakir starfsmenn Seðlabankans hafa lagt á sig mikla vinnu við þetta mál og það ber að virða en framganga Seðlabankans sem stofnunar í þessu máli er ekki að mörgu leyti til sóma.

Seðlabanki Íslands gerir m.a. í spám sínum ráð fyrir 163 milljarða kr. afgangi af viðskiptum við útlönd á hverju ári að meðaltali næstu 10 árin, 163 milljarða kr. afgangi á hverju einasta ári næstu 10 árin. Á árunum 1990–2008 var afgangur af viðskiptajöfnuði Íslands í 7 af 19 árum. Samanlagt var þessi jöfnuður öll árin sem afgangur var 76 milljarðar eða tæplega helmingur þess sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir að muni verða á hverju einasta ári næstu 10 árin. Þessi spá Seðlabankans virðist einfaldlega vera algerlega óraunhæf og sett fram með það eitt að markmiði að gera fólk ánægt og óhrætt við að samþykkja samningana.

Annað frá Seðlabankanum var í líka veru en í áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem er skrifað af undirrituðum fjalla ég örlítið um þá mælikvarða á skuldaþol ríkissjóðs sem Seðlabankinn hefur enn ekki getað útvegað Alþingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþjóðlegur mælikvarði á skuldaþol ríkissjóðs er hlutfall erlendra skulda ríkissjóðs af skatttekjum. Þetta hlutfall hér á landi er nú orðið 258%. Alþjóðastofnanir veita ríkjum með hlutfall yfir 250% sérstaka aðstoð til að tryggja að þau ráði við skuldabyrðina. Hlutfallið er viðmið um hvenær ekki er hægt að greiða niður skuld af þessari stærðargráðu með frekari skattlagningu. Við útreikninga á greiðslugetu ríkissjóðs var hvorki athugað hvaða áhrif umtalsverðir fólksflutningar úr landi hefðu á skattstofn ríkisins (sem minnkar þegar fólki fækkar) né á hagvöxt en fólksfækkun hefur bein neikvæð áhrif á hagvöxt. Ótrúlegt er að þetta hafi ekki verið skoðað þar sem fram hefur komið að fyrstu fimm mánuði ársins fluttu tíu fjölskyldur úr landi á hverjum einasta degi, hvern virkan daga vikunnar.

Í ljósi nýrra upplýsinga um að skuldabyrði þjóðarbúsins sé mun meira en AGS gerði ráð fyrir í nóvember 2008 var Seðlabanka Íslands falið að meta skuldaþol og greiðslugetu þjóðarbúsins. Í skriflegri umsögn Seðlabanka Íslands frá 15. júlí sl. um Icesave-samningana er fjallað um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, sem bankinn telur að sé um 200% af VLF á þessu ári. Skilgreining Seðlabankans á skuldum þjóðarbúsins er því miður þrengri en AGS, þar sem inn í útreikninga vantar skuldir erlendra dótturfélaga, þ.e. álfyrirtækjanna. Ef notuð er skilgreining AGS á skuldum þjóðarbúsins er hlutfallið hins vegar komið í um 240% af VLF.

Þess má geta að Argentína lenti í greiðsluþroti þegar þetta hlutfall var komið yfir 140% af VLF árið 2002. Í ljósi þessa er mikilvægt er að skoða hvað Ísland geti lært af reynslu Argentínu.

Hvað varðar mat á eignum Landsbankans þá hefur enginn fengið að sjá hverjar þessar eignir eru fyrir utan skilanefnd bankans. Gert er ráð fyrir að 75% eignanna í eignasafninu gangi upp í skuldina vegna Icesave-reikninganna. Við venjubundin gjaldþrot telst gott ef endurheimtur á eignum eru á bilinu 20–30%.

Ofmat á eignum Landsbankans mun þýða að minna endurheimtist af þeim á næstu árum, þannig að höfuðstóll Icesave-lána verður hærra eftir sjö ár en nú er gert ráð fyrir í athugasemdum við frumvarpið.“

Ýmislegt af þessu tagi kom fram hjá Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu, óraunhæfar spár, óraunhæfar tölur og lélegar upplýsingar. Þetta varð okkur ljóst sem unnum að þessum breytingartillögum og þess vegna lögðum við á okkur þessa vinnu. Þessi nýi þverpólitíski meiri hluti er kannski einsdæmi í sögu þingsins. Við skulum þó ekki gleyma því að þessi hópur vann þá vinnu sem efnahags- og skattanefnd Alþingis átti að inna af hendi en gerði ekki. Þær breytingartillögur sem koma fram í dag eru afrakstur þeirrar vinnu, sérstaklega þau efnahagslegu viðmið sem þar eru inni en einnig hluti lagalegu viðmiðanna, sem og 8. gr. um endurheimtur á innstæðum. Breytingartillögurnar eru þess eðlis að nærri öll fjárlaganefnd náði að gera þær að sínum. Það myndaðist mjög breið samstaða um þetta mál og mikill áhugi var á því innan fjárlaganefndar að ljúka því í sátt við alla. Það náðist, með undantekningu framsóknarmanna sem vildu hafa sterkar orðaða fyrirvara í málinu. Þó er ekki útséð með að þeir verði ekki með áður en yfir lýkur, sérstaklega ef tekið er tillit til einhverra af þeim breytingartillögum sem þeir hafa lagt fram.

Það er rétt að minna á að þau efnahagslegu viðmið og það þak sem er á greiðslunum vegna Icesave er upprunalega komið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og Tryggva Þór Herbertssyni í Sjálfstæðisflokknum. Þau eru að mínu mati eins og menn sögðu árið 2007 „tær snilld“. Gert er ráð fyrir að þak sé á þessum greiðslum sem fari ekki umfram getu þjóðarbúsins og tekið er á þeirri gjaldeyrisáhættu sem fylgir þessum lánum og þeirri áhættu sem myndast ef endurheimturnar úr eignasafni Landsbankans verða minni en vænst er.

Þessi efnahagslegu viðmið slá margar flugur í einu höggi, þau eru skynsamleg, sanngjörn og fyllilega ásættanleg fyrir Breta og Hollendinga, fyllilega ásættanleg fyrir nágrannaþjóðirnar, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar, og ásættanleg fyrir mig sem fulltrúa Borgarahreyfingarinnar í fjárlaganefnd. Vonandi verða þessar breytingartillögur ásættanlegar fyrir sem flesta þingmenn því að ég tel mikilvægt að þingið komi fram með háa rödd í þessu máli og að hún heyrist víða. Þess má jafnframt geta að sú hugmynd um að í upphafi yrði frumvarpið afgreitt hér 63:0 held ég að sé horfin en það var þess virði að fylgja henni eftir.

Einnig er áhugaverð 8. grein þessa frumvarps sem snýr að endurheimtum á innstæðum. Sú grein kemur nánast orðrétt upp úr stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar þar sem við teljum gríðarlega mikilvægt að þeir sem beri beina fjárhagslega ábyrgð á þessu klúðri verði látnir greiða það þegar þetta er yfirstaðið, eða eins og segir í lokasetningu greinarinnar, með leyfi forseta, „verði látnir bera það tjón“.

Hvað varðar þá umræðu sem uppi hefur verið um hvað gerist ef Icesave-skuldbindingarnar greiðast ekki að fullu upp, þ.e. ef spá Seðlabankans um hagvöxt gengur ekki eftir, þá hefur alla tíð verið skilningur okkar sem lögðum fram þessar breytingartillögur að sá afgangur falli niður í lok tímabilsins, að ríkisábyrgðinni sé lokið árið 2024. Ef það Alþingi sem þá situr kýs að borga meira er það þeirra ákvörðun en það er alveg skýrt að hugmyndin á bak við það að afgangurinn falli niður byggir á því að Bretar og Hollendingar taki á sig hluta af þessari áhættu, m.a. vegna þess að þeir rukka Íslendinga um ofurvexti af þessum lánum. Þeir munu stórgræða á þessari lánastarfsemi sinni og mér finnst alveg sjálfsagt að þeir taki þátt í áhættunni.

Ég skrifa undir álitið með fyrirvara vegna þess að ég vænti þess að fram komi raunhæfar breytingartillögur til viðbótar hér á þinginu sem ég gæti hugsað mér að samþykkja. Ég hef heldur ekki endanlega gert upp hug minn um hvernig þetta fer í endanlegri afgreiðslu málsins. Ég er feginn að þessar breytingartillögur hafa náð í gegn og ég er feginn að fjárlaganefnd tók þær út úr nefndinni með þeim hætti sem gert var. Vinna fjárlaganefndar í þessu máli hefur að mörgu leyti verið til mikils sóma en eins og ég sagði áðan er ég á þessu áliti með fyrirvara því að eins og komið hefur fram hjá framsóknarmönnum er ekki ólíklegt að fram komi breytingartillögur. Þar á meðal skiptir ein að mínu mati miklu máli en hún varðar 4 og 2% hlutföll sem virtust vera sérstakt áhugamál hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Þessi hlutföll voru upprunalega reiknuð af Seðlabankanum og áttu að vera 3,85% og 1,94% en voru á einhverjum næturfundinum í kaffihléinu hækkuð upp í 2% og 4% án útskýringa og rökstuðnings af einskærum áhuga einhverra í fjárlaganefnd á að borga aðeins meira en þörf er á.

Hér hafa verið viðraðar skoðanir um menn sem gengju hagsmuna annarra en Íslendinga í þessu máli. Ég tek ekki undir þær skoðanir en vissulega hef ég orðið vitni að því í þessari vinnu að sú spurning hefur vaknað á hvaða vegferð menn voru þegar skrifað var undir þessa samninga og í þeirri vinnu sem Alþingi hefur unnið í framhaldi af því. Ég er feginn að málið er komið inn í þingið með þessum breytingartillögum. Ég styð þær að öðru óbreyttu og óska fjárlaganefnd til hamingju með að hafa afgreitt þetta mál.