Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 13:06:54 (4171)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:06]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir athugasemdina. Ég tel mjög mikilvægt að því sé haldið til haga hverjir stóðu fyrir þessari vegferð sem farið var í með einkavæðingu ríkisbanka og ríkisfyrirtækja. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að sem flest fyrirtæki eigi að vera í einkaeigu en ekki í eigu ríkisins en það er ekki sama hvernig staðið er að málum.

Ég tel að trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi muni ekki aukast fyrr en þeir ráðherrar sem voru í síðustu ríkisstjórn og ríkisstjórninni þar á undan og þeir þingmenn sem áttu þátt í þeim ríkisstjórnum eru farnir af þingi. Ég held að þetta mál sé svo mikilvægt að það muni ekki jafna sig fyrr en það gerist. Það mun taka einar til tvennar kosningar í viðbót. Framsóknarflokkurinn hefur unnið grettistak í því að skipta út sínu fólki, nánast allir þingmenn Framsóknarflokksins eru nýir nema einn og ég óska þeim til hamingju með það. Það er full þörf á að hinir fjórflokkarnir geri slíkt hið sama.