Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 13:10:31 (4173)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Þó að ég hafi ekki að öllu leyti verið sammála fyrri hluta ræðunnar var margt gott í henni. Fyrri hlutinn hljómaði frekar eins og eitt af þeim bloggum sem maður sér á eyjunni.is.

Ég held að rétt sé að halda einu til haga, þannig að maður noti frasa hv. þingmanns, og það er að við sölu á bönkunum og einkavæðingu þeirra stóð í upphafi til að tryggð yrði dreifð eignaraðild að bönkunum til þess að koma í veg fyrir að bankarnir enduðu í eign blokka sem höfðu svo mjög vaðið uppi í íslensku atvinnulífi síðustu áratugina. Þetta var mikið áherslumál hjá fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni. Hann þurfti að bakka með þetta, var hrakinn með þetta mál af Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Reyndar gekk Samfylkingin svo langt að segja að hér væri ofríki þar sem forsætisráðherra vildi ráða hverjir ættu bankana.

Mig langar líka til þess að minnast á annað. Nú var ég staddur í miðju hruninu og tel mig hafa nokkuð góða yfirsýn yfir hvað gerðist a.m.k. einu til einu og hálfu ári áður. Ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt ýjað að því að stjórnvöld hefðu vitað af því að (Forseti hringir.) bankakerfið væri að hrynja. Mikil væri þeirra ábyrgð þá. Gæti hv. þingmaður gefið mér heimildir fyrir þessari (Forseti hringir.) staðhæfingu sinni?