Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 13:42:53 (4179)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka þingnefndunum sem hafa lagt á sig mikla vinnu í allt sumar og þá sérstaklega fjárlaganefnd, bæði meiri og minni hluta þeirrar nefndar, en einnig efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd og öðrum þingmönnum sem lagt hafa á köflum nótt við dag í sumar til að koma þessu máli í endanlegan búning og til afgreiðslu.

Ég þarf ekki miklar málalengingar á þessu stigi afgreiðslu málsins. Ég held að ég geti tekið undir allt sem hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, sagði í sinni framsöguræðu og sömuleiðis hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Ég tel að nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sé ítarlegt og í því séu fólgnar góðar útskýringar á málinu sjálfu, aðdraganda þess og eðli og síðan útlistanir á þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Mikil vinna og mikil gagnasöfnun hefur farið fram í þessu máli og samhliða vinnu Alþingis hafa ýmsar stofnanir eins og Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lagt fram vinnu sem öll er gagnleg því að í leiðinni hefur myndin af heildarstöðu þjóðarbúsins skýrst nokkuð. Ég fagna sérstaklega þeirri samstöðu sem tekist hefur um umgjörð og afgreiðslu málsins og að fjórir flokkar af fimm standi að því og muni styðja þær breytingartillögur sem hér eru fluttar, ef ég hef skilið rétt. Ég tel að þar eigi allir hrós skilið. Kannski má segja að Borgarahreyfingin eigi ekki síst skilið hrós fyrir að koma að málinu með þessum ábyrga hætti vegna þess að þegar forsaga þessa máls er rakin eiga, eins og hefur komið fram áður í umræðunni, fjórir flokkar af fimm sem nú eiga menn kjörna á þingi sér sögu í þessu máli, bera á því ábyrgð í einhverjum skilningi, annaðhvort á síðustu mánuðum eða fyrr.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að rekja forsögu málsins. Það skiptir í sjálfu sér ekki sköpum í mínum huga hvernig við í túlkunum eða skylmingum ræðum um hana en það væri þá kannski aðallega til heimabrúks eða inn á við. Ég er heldur ekki viss um að það muni ráða niðurstöðu sögunnar þegar hún verður skrifuð. Við sem erum hér núna erum ekki svo stór að þegar frá líður muni þykja mikilvægast í þessu máli hvernig við reyndum að útlista okkar aðild eða hlut að þessu máli, rétta okkar hlut eða halla annarra. Það verður sagan sjálf eins og hún skrifast sem þessu ræður, þó að við leggjum vissulega til efniviðinn í hana með störfum okkar. Ég held að menn sem hafa fjallað um nýlega liðna atburði frá sínu sjónarhorni mættu hafa í huga að væntanlega verða þau mál öll gerð upp yfirvegað, m.a. á grundvelli rannsókna sem nú fara fram. Þá er ekki víst að það komi betur út í framtíðinni að hafa ætlað að merkja sér hlutina öðruvísi en síðan verður hin sannreynda niðurstaða rannsókna og sagnaritara.

Ég minni á að framkvæmdarvaldinu var falið það verkefni á Alþingi 5. desember sl. að leiða þetta mál til lykta með samningum í þeim aðstæðum sem þá voru í málinu. Það var síðan gert með fyrirvara um samþykki Alþingis á þeim hluta málsins sem þarf atbeina Alþingis í framhaldinu, þ.e. veitingu ríkisábyrgðanna. Ég ætla ekki að kvarta undan einu eða neinu sem að mér hefur beinst í þessum efnum. Ég tek miklu frekar nærri mér þegar gott fólk sem hefur ekki málfrelsi á Alþingi má sitja undir harla harkalegum ummælum án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Ég endurtek það sem ég sagði í stuttu andsvari. Ég tel að allir sem að þessu máli hafa unnið og komið hafi reynt að gera sitt besta í þágu þjóðarhagsmuna við erfiðar aðstæður og það sé ómaklegt að ætla nokkrum manni annað.

Icesave-málið sjálft er vandamálið hér. Þessi sorgarsaga sem hv. þingmaður sem síðast talaði, Þráinn Bertelsson, rakti ágætlega er okkar ógæfa í þessum efnum. Það þjónar engum tilgangi og er ekki uppbyggilegt á nokkurn hátt að við, sem höfum setið uppi með það hlutskipti frá og með bankahruninu í október, í vetur, vor og sumar, að reyna að greiða úr ósköpunum, berum hvert annað sökum. Það er ekki stórmannlegt að reyna að færa ábyrgðina af þeim sem sannanlega og raunverulega bjuggu vandamálið til yfir á hina sem hafa reynt að leysa það. Menn geta að sjálfsögðu haft sínar skoðanir á því hvort þar hafi tekist nógu vel til en stórmannlegt er það ekki að reyna að gera samninganefnd íslenskra stjórnvalda eða aðra sem mikið hafa lagt á sig við að greiða úr hlutunum að sökudólgunum í þessu máli. Það voru ekki þeir heldur hinir sem bjuggu vandann til. Icesave-málið sjálft er vandinn, ekki tilraunir til að leysa úr því. Ég ber fyllsta traust til þeirra sem að þessu unnu fyrir hönd stjórnvalda, samninganefndarinnar og annarra sérfræðinga og ráðgjafa sem stuðst var við og þakka þeim fyrir vel unnin störf.

Ég vona að það sé sameiginlegur skilningur allra hér að það sem við erum að gera nú sé öllu öðru mikilvægara, að stefna á bestu mögulega lausn þessa máls við þær aðstæður sem okkur eru skapaðar. Við reynum ekki að stefna að lendingu í málinu sem skilur það eftir óleyst eða upp í loft, því þá mistækist okkur ætlunarverkið. Verið er að reyna að finna bestu mögulega umgjörð utan um afgreiðslu málsins sem varðar hagsmuni Íslands í þessu tilviki og það sem lagt hefur verið af mörkum í þeim efnum með mikilli vinnu er mjög virðingarvert. Ég tel að þær breytingartillögur, skilmálar og sú umgjörð sem hér er lögð sé í fyrsta lagi sanngjörn, þetta sé sanngjarnt upplegg af okkar hálfu hvað varðar að setja þetta í þjóðhagslegt samhengi við líklegar aðstæður okkar á komandi árum. Þar með er verið að segja að svona sýnist okkur að við getum staðið að efnd þessa samkomulags og við teljum að það geti gengið upp. Þá á að vera hægt að fá skilning gagnaðilanna á því. Þetta er málefnalegt og í öllum tilvikum eru gild rök fyrir því sem viðsemjendur okkar vonandi fallast á. Það þjónar hagsmunum beggja að þannig sé unnið úr þessu máli að það besta komi út úr því.

Nefndin mun skoða málið á milli 2. og 3. umr. og tiltekin atriði hafa verið tilgreind sem á að líta betur á. Það er sjálfsagt rétt og skylt en ég skynja það þannig að menn telji að í öllum aðalatriðum sé hin efnislega niðurstaða fengin í samkomulaginu sem liggur til grundvallar afgreiðslu fjárlaganefndar. Framtíðin ein getur síðan svarað því hvernig úr þessu spilast. Þar skiptir öllu máli fyrir okkur, þó að Icesave væri ekki til og hefði aldrei orðið, óháð því máli skiptir mestu hvernig okkur vegnar í endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs á næstu missirum. Það mun ráða gríðarlega miklu um í hvaða stöðu Ísland verður eftir 5 ár, 10 eða 20 ár hvernig okkur gengur að komast í gegnum erfiðleikana og vinna okkur af stað út úr þeim. Það að þetta verði ekki of langvinnt samdráttar- og erfiðleikaskeið, að fljótlega fari að rofa til, það kvikni ljós, bjartsýni, trú á framtíðina og kjarkur skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að hugarfarið er stór þáttur. Hinn huglægi þáttur í tilfinningu manna fyrir aðstæðum er kannski stærsta einstaka breytan í hagfræðunum sem allt of oft er horft fram hjá, hugarfarið, andrúmsloftið og stemmningin. Hún er búin til á ýmsan hátt og stundum mögnuð upp fram úr hófi. Mönnum er talin trú um að allt gangi svo vel og sé svo gott að menn geti gert og látið ýmislegt eftir sér sem síðan reynist ekki innstæða fyrir. Við Íslendingar höfum slæma reynslu af því að slík stemmning sé mögnuð upp en við gætum líka átt eftir að fá jafnslæma reynslu af því ef við gerum um of hið gagnstæða, ef við tölum úr okkur kjarkinn og teljum okkur trú um að þetta sé enn verra og vonlausara en nokkur efni standa til.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að við ljúkum þessu máli. Almennt séð skiptir það okkur gríðarlega miklu máli að við stefnum til farsællar lausnar á þessu á næstu dögum þannig að þetta mál hætti að standa í vegi annarra hluta og við, mér liggur við að segja, frú forseti, fáum vinnufrið við allt annað sem bíður og fram undan er að sinna. Þetta mál hefur tekið tíma og orku manna nánast alfarið í sumar og bæði stjórnkerfið og Alþingi, svo ekki sé talað um fjárlaganefnd, hafa í raun ekki haft næði til að sinna neinu öðru en þessu. Það er þó ekki eins og engin verkefni bíði, t.d. á sviði ríkisfjármála, sem þessir sömu aðilar munu þurfa að bera hitann og þungann af, þ.e. fjármálaráðuneytið, fjárlaganefnd og Alþingi sjálft. Margt annað kallar á að við náum niðurstöðu í þessu máli en við sjálf, tíminn og allt það.

Við horfumst í augu við þá staðreynd að við munum ekki komast áfram með áætlanir um að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og þróa áfram samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn nema koma þessu máli úr veginum. Þetta hefur tengingu við endurreisn bankanna og hefur áhrif á samskipti okkar við kröfuhafa, erlenda banka og fjármálastofnanir. Alþjóðasamfélagið horfir til þess hvernig þessu máli reiðir af. Enn þá er alþjóðlegt kastljós á Íslandi og því miður beinist það í talsverðum mæli að þessu tiltekna máli. Þetta hefur síðan afleidd áhrif á hluti eins og þróun gengis krónunnar, spurninguna um forsendur vaxtalækkana, að ná niður verðbólgu og fleiri hluti sem allir eru okkur bráðnauðsynlegir. Atvinnulífið sjálft og hvernig það þróast í vetur er gríðarlega mikilvægur þáttur. Þar bíða mikil úrlausnaverkefni og það er í höndum banka, lánastofnana og forsvarsmanna í atvinnulífinu sjálfu að greiða úr þeim miklu erfiðleikum sem menn búa þar við og sitja uppi með, afleiðingum hrunsins og mikillar skuldsetningar á undanförnum árum, sem og auðvitað afleiðingum af samdrætti í efnahagslífinu og þeim þrengingum sem þetta leggur almennt á almenning, heimilin og fyrirtækin.

Einn enn þáttur þessa máls er vissulega huglægur þó að hann byggi á mati á efnislegum undirstöðum og það er spurningin um traust, tiltrú og orðstír Íslands. Okkur er gríðarlega mikilvægt að endurheimta rykti okkar sem áreiðanlegir aðilar í viðskiptum sem hægt sé að eiga viðskipti og samskipti við. Í vetur höfum við þurft að horfast í augu við að íslenskir aðilar, fyrirtæki og fjármálastofnanir hafa þurft að sanna sig fyrir fram upp á hvern einasta dag. Þau þurfa enn að sanna að þau geti átt í eðlilegum bankaviðskiptum, að menn geti afgreitt vörur ef þær eru pantaðar frá þeim, staðið skil á þeim á réttum afhendingartíma, tekið við greiðslunum o.s.frv. Því er gríðarlega mikilvægt að endurheimta almennt traust og koma þeim skilaboðum til umhverfisins að nú séu hlutirnir að komast í skárra horf á Íslandi, að okkur verði ágengt í endurreisninni og það miði í rétta átt. Hver einasta góð frétt er tíu sinnum dýrmætari en ekkert umtal, svo ekki sé talað um hitt ef fréttirnar af Íslandi halda áfram að vera neikvæðar.

Í mínum huga er þetta í sjálfu sér ósköp einfalt. Það er engin leið til fyrir Ísland nema áfram. Það er enginn bakkgír á þessum bíl. Við mundum heldur ekki setja í hann þótt hann væri þar. Við verðum að snúa okkur af miklum krafti að því að glíma við erfiðleikana. Við þurfum að horfast í augu við það mikla tjón og þær skuldir sem við sitjum uppi með eftir þetta en þó eigum við heldur ekki að gleyma hinu sem leggst með okkur í endurreisnarstarfinu, sem er mikill þjóðarauður, auðlindir og innviðir í þróuðu og uppbyggðu samfélagi. Við erum lýðfræðilega ung þjóð, vel menntuð, dugmikil og vinnusöm og okkur á því ekkert að vera að vanbúnaði að leggja grunn að þeirri tiltrú á framtíðina sem okkur skiptir miklu máli að skapist. Það þarf ekki að fara í grafgötur með að þetta mál hefur verið öllum erfitt sem að því hafa komið. Það er stórt, siðfræðilega snúið og á því eru ýmsir vinklar sem m.a. er ágætlega fjallað um í nefndaráliti meiri hlutans. Ég sé reyndar að í nefndarálitum fleiri aðila er komið inn á hinn siðferðilega eða siðræna þátt þessa máls og það er vel því hann er að sjálfsögðu stór. Þá skulum við minnast þess líka að þegar Alþingi mótaði leikreglurnar fyrir rannsóknarstarfið sem nú er í gangi var sérstaklega kveðið á um að hinn siðferðilegi og siðræni þáttur þessa máls skyldi rannsakaður og greindur af þar til bærum faglegum aðilum því eitt af því sem við Íslendingar þurfum að horfast í augu við er að sá þáttur er til staðar í öllu þessu ferli og þeim ósköpum sem yfir okkur hafa gengið.

Reynslan ein getur skorið úr um hvernig okkur tekst til. Við sitjum uppi með þær aðstæður sem raun ber vitni. Við erum þar sem við erum í tíma og rúmi og hversu mikið sem við vildum verður klukkunni ekki snúið til baka. Við getum t.d. ekki hoppað aftur fyrir 2002 þótt ekki væri nema í stutta stund til að reyna að afstýra ýmsu sem þá fór af stað og í kjölfarið. Það er því miður aðeins í vísindaskáldsögum og myndum sem tímaflakkið er raunhæfur möguleiki. Við erum það sem við erum og raunheimurinn og aðstæðurnar ráða að lokum ferðinni.

Mér finnst stundum gæta þeirrar hugsunar að einhvern tímann hafi verið annað í boði eftir að ólánið var orðið, tjónið orðið og skaðinn skeður, en að út úr þessu kæmi þungbær niðurstaða fyrir Ísland. Ég held að aldrei hafi annað verið í kortunum, því miður. Strax í byrjun októbermánaðar fylltust menn skelfingu á þessum vinnustað þegar mönnum varð ljóst hversu háar upphæðir væru þarna undir. Það var lamandi tilfinning að fá upplýsingar um hvað gæti verið í húfi fyrir landið og ekkert hefur breyst í þeim efnum síðan. Krafan um að hér yrði landað litlum og sætum samningi sem gerði þetta Icesave-mál huggulegt og þægilegt, hvernig krafa er það? Að lítill og sætur samningur geti orðið um stórt og afspyrnu vont mál? (BJJ: Það hefur enginn sagt það.) (ÞrB: Hver er með þær kröfur?) Ég bið engan að taka þetta til sín en þeir sem kjósa gera það. Ég legg ekki út af orðum eins eða neins í þessum efnum. Ég legg út af þeirri hugsun sem mér finnst menn stundum nálgast í þessum efnum í almennri umræðu eða hvar sem er, að í boði hafi verið þær aðstæður og forsendur fyrir Ísland í þessum efnum að niðurstaðan gæti orðið önnur en þungbær og erfið. Ég lýsi því mati mínu að svo hafi ekki verið.

Ég var gagnrýninn á ýmislegt sem gerðist í þessum efnum í haust og menn hafa gaman af að rifja það upp núna. Ég var það, já, það er rétt. Ég vonaði svo innilega að það fyndust betri leiðir fyrir Ísland út úr þessum ósköpum en í raun varð en ég gerði mér þó alltaf grein fyrir því frá og með byrjun októbermánaðar að þarna gæti verið í uppsiglingu skelfileg ógæfa fyrir okkur. Það gerðum við öll. Á daglegum fundum formanna stjórnmálaflokkanna fram eftir öllum októbermánuði bar þetta mál nánast alltaf á góma af því að menn vissu að þarna gátu verið stórkostlega hættulegir og alvarlegir hlutir í farvatninu. Það varð líka niðurstaðan. Ég held að sú staðreynd blasi við okkur að þetta gat aldrei farið öðruvísi en að verða okkur þungbært og erfitt. Þá er bara eftir að reyna að gera það besta úr stöðunni, reyna að landa skástu mögulegu niðurstöðu sem í boði er og það tel ég að sé að takast. Ég tel að fjárlaganefnd Alþingis og aðrir sem lagt hafa hönd á plóginn í þeim efnum eigi þakkir skildar. Vonandi tekst okkur sameiginlega að halda þannig á hagsmunum þjóðarinnar í þessari annars afar þröngu stöðu að dómur sögunnar verði sá að menn hafi gert sitt besta og skásta niðurstaðan sem í boði var hafi fengist í málinu. Það er að sjálfsögðu of snemmt að sjá fyrir hvort svo verður og við eigum eftir að kynnast því hver viðbrögð gagnaðilanna verða í framhaldi af afgreiðslu málsins. Ég tel þó að við höfum ágætar málsástæður, sterk rök, sanngirnisrök og margt annað í farteskinu til að takast á við það.