Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 14:07:30 (4184)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonast til þess að á milli 2. og 3. umr. í hv. fjárlaganefnd taki þingmenn á Alþingi Íslendinga þessa tillögu framsóknarmanna til greina. Það er að sjálfsögðu ekki sanngjarnt að íslenska þjóðin eigi að greiða vexti af Icesave-samkomulaginu frá og með síðustu áramótum. Mér þykir dapurlegt ef það eiga að vera skilaboðin frá Alþingi Íslendinga að menn telji það ásættanlega niðurstöðu fyrir íslensku þjóðina.

Það má reka Landspítala – háskólasjúkrahús í níu mánuði fyrir 25 milljarða kr. Af hverju reyna menn ekki að standa í lappirnar? Af hverju stöndum við ekki saman og ræðum við þessar þjóðir og fáum þá a.m.k. neikvætt svar við því?. Hver einasta milljón er orðin mikilvæg í rekstri hins opinbera og hér er um að ræða 25 milljarða. Það er margt annað sem við þingmenn Framsóknarflokksins viljum gera betur í þessum efnum og ég vona svo sannarlega að við náum einhverjum árangri á milli 2. og 3. umr. í þeim efnum.