Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 14:11:01 (4187)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég heyrði rétt var hv. þm. Kristján Þór Júlíusson frá Dalvík með mjög góða útlistun á þessu máli sem ég er sammála. Ég held að það sé ekki aðalatriði málsins hvort við túlkum þetta til eða frá innan eða utan ramma samningsins. Það sem ræður í framhaldi af afgreiðslu Alþingis eru undirtektir eða viðbrögð gagnaðilanna, það er augljóst mál.

Ég geng út frá því, og trúi að það eigi við um okkur öll, líka hv. þingmann, að við vonumst til þess að hér sé að fæðast farsæl og góð lausn í þessu máli, að við séum að finna skástu lendingu sem í boði er og að málið verði ekki áfram upp í loft. Þess vegna skil ég ekki hvernig það þjónar beinlínis okkar hagsmunum að vera með málflutning sem gengur út á að sannfæra gagnaðilana um að það sé ekkert samkomulag, það sé bara fyrir bí. Ég átta mig ekki alveg á því. Ég held þvert á móti að við þurfum að undirbyggja með málefnalegum sanngirnisrökum, vísa í okkar þjóðhagslegu forsendur og líklegar horfur, (Forseti hringir.) að svona treystum við okkur til að standa að afgreiðslu þessa máls og reyna að fá fram á því (Forseti hringir.) skilning.