Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 14:15:15 (4190)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra hef ég tekið eftir því að við breytum ekki fortíðinni. Það er dálítið langt síðan ég tók eftir því. Þess vegna getum við ekki leiðrétt þau mistök sem gerð hafa verið en þau eru fjöldamörg frá því fyrir áratugum síðan, fyrir og eftir fall o.s.frv. Ég tel líka að þessi samningur sem gerður var hafi verið mistök en við verðum að vinna úr stöðunni eins og hún er núna. Komið hafa fram ákveðnar tillögur sem ég held að séu bæði sanngjarnar og réttlátar og séu líka réttlát niðurstaða fyrir Hollendinga og Breta. Það sem vantar á núna er að kynna þetta mál. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra — frú forseti, hvað er með bjölluna?

(Forseti (ÁI): Bjallan er ekki alveg í lagi en tímataka er í lagi og hv. þingmaður hefur um 20 sekúndur til umráða.)

6,26 stendur hérna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að upplýsa þessa vöru sem við erum búin að framleiða á Íslandi um alla Evrópu? Hvort það sé ekki nauðsynlegt að þingmenn fari sjálfir um Evrópu og kynni fyrir félögum sínum út um allt hvernig þessi niðurstaða er fengin og hvernig hún virkar. (Forseti hringir.) Einnig hvort ekki sé rétt að á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) frestum við þinginu í tvær vikur (Forseti hringir.) einmitt til að gera þetta.