Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 15:12:26 (4202)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:12]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum veikt stöðu okkar verulega lögfræðilega og ég vísa í þann rökstuðning sem ég setti fram áðan, veikt hana mjög verulega þannig að það er leitun að úrræðum í dag — sem við áttum. Það er leitun að þeim. Ég útiloka ekki að þær séu til, langt í frá. En það eru miklu erfiðari leiðir en við áttum í desember, miklu erfiðari. Fyrrverandi forsætisráðherra gaf ekki skýringar á því af hverju við nýttum okkur ekki kæruleiðina fyrir 6. janúar 2009. Þær voru a.m.k. að mínu mati algerlega ófullnægjandi.

Ég ítreka fyrirspurn mína til hv. þm. Bjarna Benediktssonar um að gefa þær skýringar sem hann hefur sjálfstætt.

Varðandi AGS-ábyrgðina. Við hétum að virða skuldbindingar okkar. Ég hef aldrei heyrt það að menn virði skuldbindingar sínar með því að vaða með ágreining til dómstóla. (Gripið fram í: Nú!) (Gripið fram í.) Af hverju var þá ekki samið um það með þingsályktuninni, af hverju var þingsályktunin ekki upp á það að við færum dómstólaleiðina? Öll rökræða um málið gekk út á samningaleið, ekki dómstólaleið. (Gripið fram í: Fleiri skuldbindingar.)