Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 15:15:07 (4204)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er að koma ítrekað fram að það virðast vera deildar meiningar milli formanns Sjálfstæðisflokksins og formanna stjórnarflokkanna um það hvort hér sé um að ræða nýtt samningstilboð eða ekki. Til að koma þessu alveg á hreint langar mig til að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hvort hann geti þá ekki tekið undir frávísunartillögu framsóknarmanna þannig að það sé alveg hreint og klárt að við teljum að það eigi að ganga til nýrra samninga.

Ég hefði einnig í framhaldinu, ef hv. þingmaður hefði tíma til, gjarnan viljað fá að heyra útskýringar á því hvað hann á við með skuldajöfnunarrétti því eins og ég hef skilið það þegar maður jafnar skuldir þá þarf að vera einhver skuld á móti þannig að þessu sé jafnað út. Það væri því áhugavert að heyra hvað hann á eiginlega við með því. Og ef eitthvað verður eftir af þessum tveimur mínútum sem hv. þingmaður hefur til andsvars þá verð ég að segja það að mér finnst mjög einkennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa samþykkt að leggja fram efnahagsleg viðmið í þessum breytingartillögum og standa að þeim án þess að tekið sé skýrt á því hvað eigi að gera við væntanlegar — ekki hugsanlegar heldur að mínu mati væntanlegar — eftirstöðvar af lánasamningunum miðað við þetta hámark sem við erum að gefa okkur.

Ég hefði líka mikinn áhuga á að heyra útskýringu á því hvernig stendur á því að hægt var að hækka þarna um miðja nótt útreiknuð viðmið frá Seðlabankanum upp í 4% annars vegar og 2% hins vegar sem, eins og hefur komið fram í umræðunni, jafngildir um 3 milljörðum á ári eða sama og ríkisstjórnin var að skera niður í framlögum til öryrkja og ellilífeyrisþega. Hver er ástæðan fyrir því að þetta var ákveðið? Eftir samtöl mín við sjálfstæðismenn held ég að þeir séu meira og minna sammála um að forsendur Seðlabankans í umsögn hans séu í meira lagi bjartsýnar og því mjög einkennilegt að sjá að þeir skuli hafa tekið undir það að hækka greiðsluviðmiðið.