Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 15:45:35 (4211)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra einnar spurningar og hef ekki fengið svar. Ég fer fram á að fá svar við því: Af hverju var ekki búið að ganga frá þessu máli í ríkisstjórninni? Hvernig má það vera með þetta risastóra mál, sem er algerlega meingallað, að ríkisstjórnin sé ekki búin að ganga frá því innan sinna raða? Einhver hefði spurt: Hvers konar verkstjórn er þetta? Einhver hefði spurt að því.

Ég veit ekki hversu sérfróð hæstv. ráðherra er þegar kemur að hugmyndafræði. Hins vegar liggur fyrir að reglugerðarverkið var meingallað og við tókum það upp eftir Evrópusambandinu. Innstæðutryggingartilskipunin er svo sannarlega meingölluð. Við tókum hana beint upp eftir Evrópusambandinu. Ef hæstv. ráðherra telur að þetta sé tap frjálshyggjunnar þá lítur hún væntanlega svo á að Evrópusambandið sé mikið frjálshyggjubandalag. En ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra svari spurningunni.