Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 15:46:56 (4212)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki átt sæti í síðustu ríkisstjórn. Það er eins og hv. þingmanni hafi ekki verið kunnugt um það hvaða kjör voru uppi á borðinu í októbermánuði, tel ég, (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) þegar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hélt um taumana. Þá voru þau kjör sem voru uppi á borðinu (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) margfalt verri en þau sem við stöndum þó frammi fyrir núna og munar þar verulegu.

Ég sagði áðan varðandi þá umgjörð um þann samning sem nú liggur fyrir að hún er betri og bætir mjög samninginn sem var gerður og tryggir miklu betri umgerð. Öryggisákvæðin eru miklu skýrari og það er allt til bóta og ég fagna því mjög.